-6.1 C
Selfoss

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott

Vinsælast

Við fjölskyldan höfum talið niður dagana í sumarfrí. Við biðum spennt eftir því að komast af stað í útilegu. Við ætluðum svo sannarlega að ferðast innanlands og njóta landsins okkar fagra, sólarinnar og félagsskapar  hvort við annað. Þegar við vorum komin á fyrsta náttstað lentum við í vandræðum með að tjalda gamla fellihýsinu sem við keyptum í fyrra. Þetta var fyrsta útilegan okkar með fellihýsið. Eftir að hafa fengið hjálp frá góðum frænda, fengið startkapla hjá nágranna og hringt í fyrri eiganda náðum við loksins að klára verkið og hugsuðum“fall er fararheill.” Daginn eftir ákváðum við að leggja af stað á góðum tíma og vera í samfloti við vini okkar austur á land. Við pökkuðum fellihýsinu og byrjuðum að loka því en rétt áður en það náðist að fullu bilaði eitthvað. Þá kom í ljós að vandamálið var stærra en áður hafði verið talið. Því upphófst nokkurra tíma verkefni sem reyndi vel á þolinmæðina. Eftir langa bið, hjálp frá öðrum nágranna,  og síðan vinum frá Selfossi sem kipptu með sér verkfærum fyrir okkur á ferð sinni austur þá náði maðurinn minn að koma því svo fyrir að við gátum haldið vegferð okkar áfram. Eftir því sem við nálguðumst Skaftafell hugsaði ég með mér:“Þetta er magnað. Við erum búin að hlakka til að fara í þetta ferðalag í margar vikur. Fellihýsið bilar, því er reddað og við getum haldið ferð okkar áfram.” Ég gæti hugsað: “þetta er svo týpískt”. En væri það rétt? Nei, svo sannarlega ekki. Við þurfum ekki alltaf að búast við því að eitthvað slæmt gerist bara af því að okkur hlakkar til eða langar að upplifa eitthvað gleðilegt í lífinu. Lífið gerist, það er rétt. En mitt í aðstæðunum er svo ótal margt sem við getum verið þakklát fyrir. Ég áttaði mig á því á þessum stutta tíma hvað fólk er yndislegt. Ókunnugt fólk rétti fram hjálparhönd og vildi hjálpa okkur. Vinir okkur tóku á sig krókaleið til þess að fara heim til okkar til að ná í verkfæri. Það er kærleikur í samfélaginu okkar sem er dýrmætur. Þegar við mættum í Skaftafell, biðum við í röð eftir því að komast inn á svæðið. Við vorum í röð og rétt náðum að komast inn á svæðið áður en 500 manna takmarkinu var náð og fyrir það var ég þakklát. Eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir, fórum við í góða kvöldgöngu um svæðið. Þvílík fegurð, þvílíkt land. Ég er svo þakklát fyrir að fá tækifæri til að sýna börnunum mínum landið okkar fagra, ég er þakklát fyrir að synir mínir upplifðu gleðina í því fá að halda ferðalaginu áfram því þeir gerðu sér grein fyrir því að það var ekki sjálfsagt. Ég er líka þakklát fyrir að fá að sitja hér í fellihýsinu mínu og skrifa þennan pistil.

Það er oft þannig að maður metur meira það sem maður hefur eftir að hafa upplifað erfiðleika við að komast þangað. Þessu má lýsa eins og tilfinningunni sem maður upplifir þegar manni tekist eitthvað sem var stór og mikil áskorun.. Það gæti verið fjallgangan sem var krefjandi, hlaupið sem þú ætlaðir varla að þora að taka þátt í, prófið sem þú hélst að þú myndir falla í eða sjúkdómsferlið sem tók ótrúlega mikið á. Eitt er víst að lífið er langhlaup, þú munt hlaupa upp í móti, þú munt líka fá góðan meðvind og hlaupa niður í móti, suma daga verður rigning og aðra daga verður sól. Á lífsleiðinni mun fólk rétta þér hjálparhönd og þú munt einnig fá tækifæri til að rétta öðrum hjálparhönd og hafa jákvæð áhrif á aðra. Ég hvet þig til að nýta dagana vel. Telja blessanir þínar og muna að fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.

 

Nýjar fréttir