-12.1 C
Selfoss

Matgæðingur vikunnar með lambalæri og eftirrétt

Vinsælast

Ég þakka uppáhalds bróður mínum honum Garðari í Hólmi fyrir áskorunina, hann er frábær í eldhúsinu. Ég er með uppskrift að lambalæri, sjálfsögðu af heimaslátruðu. Ég ætla að elda það eins og mamma gerði en hún var snillingur í matargerð. Uppskriftin er eftirfarandi:

1 lambalæri, salt, pipar, paprikuduft eftir smekk.

Takið lærið og látið þiðna í ísskápnum í 3-4 daga. Síðan er það sett í steikarpott, stungið með hníf í miðju þess og salt og pipar sett þar í. Þá er kryddinu einnig stráð yfir lærið, sett smá vatn í pottinn og lokið yfir. Síðan er það sett í ofninn á sirka 175°C í 1 ½ – 2 klukkutíma eftir stærð. Soðið sem kemur af kjötinu er sett í lítinn pott, bætt við vatni og suðan látin koma upp, Hræra út smá hveiti sem sósan er þykkt með og bætt við smá sósulit. Þetta er svo borið fram með rabbabarasultu, rauðkáli, grænum baunum og brúnuðum eða soðnum kartöflum.

Svo er það eftirrétturinn. Á sunnudögum í Hólmi þegar ég var lítil stelpa bjó mamma oft til þennan eftirrétt. Rabbabarahófurinn skorinn af rabbabaranum, snyrtur, þveginn og troðið í  stóra krukku. 2 dl vatn og 1 dl sykur sett í pott og soðið þar til það fer að þykkna, hellt ofan á rabbabarahófanna, lokið sett á. Krukkan sett í pott og tuska undir (til að hlífa krukkunni) og svolítið vatn sett í pottinn. Þetta er látið sjóða í sirka 30 mínútur eða þar til það er orðið meyrt. Þetta er svo borið fram með rjóma eða ís.

Ég skora á tengdadóttur mína Kristínu Jóhannsdóttur að vera næsti matgæðingur. Ég hef oft verið í matarboðum hjá henni og aldrei verið svikin. Hún mun örugglega töfra eitthvað girnilegt fram úr erminni.

 

Nýjar fréttir