-5 C
Selfoss

Hjálmlaus með farþega, fleiri en einn, á fullri ferð!

Vinsælast

Umtalsverð fjölgun er á léttum bifhjólum í flokki 1 sem flestir þekkja sem léttar rafvespur sem ekki komast hraðar en 25 km/h. Það er ágætis áminning um búnaðinn og þyngd hans að kalla hann bifhjól. Í umferðarlögum gilda ákveðnar reglur sem þarf að fara eftir og foreldrar ættu að kynna sér og þeir sem hafa slík hjól til umráða. Mikið hefur borið á því að börn séu hjálmlaus með farþega, jafnvel fleiri en einn, á fullri ferð. Það hefur valdið því að margir hafa af því áhyggjur hvað gerist verði slys.

Hvaða reglur eru í gildi?

Ekki þarf nein sérstök réttindi á hjól af þessu tagi. Aldurstakmarkið er þannig að ökumaður verður að vera orðinn fullra 13 ára. Hjólunum má aka á gangstétt, hjólastíg eða gangstétt svo fremi sem það valdi ekki hættu eða óþægindum fyrir gangandi vegfarendur eða lagt hafi verið bann við því. Þá er mælt með því að tækin séu ekki notuð í almennri umferð þar sem hraði er 50 km/klst eða meiri. Ekki má fara hraðar en 25 km/klst. Hvað farþega varðar verður ökumaður að vera orðinn 20 ára til að mega hafa farþega sé hjólið gert fyrir farþega og það staðfest af framleiðanda. Þá verða börn 7 ára og yngri að vera í sérstöku sæti sem ætlað er fyrir farþegaflutning á bifhjóli. Þá er skylt að vera með hjálm á hjólinu og nota lágmarks viðurkenndan hlífðarfatnað sem er ætlaður til bifhjólaaksturs. Nánar má lesa um reglurnar á heimasíðu Samgöngustofu.

Það er ekki barnaleikur að detta af hjóli

Blaðið leitaði á náðir fyrrum formanns Bifhjólaklúbbsins Postula um hvað honum þætti um hjól af þessu tagi sem að ofan er getið. „Hjólin eru auðvitað velkomin í flóru bifhjóla og við fögnum hverjum þeim sem kýs sér slíkan fararskjóta. Að því sögðu leggur þetta þær byrðar á herðar ökumenn hjólanna að hugsa um öryggismálin fyrst og síðast. Hjálmur númer eitt, við eigum nefnilega bara einn heila. Í öðru lagi hlífðarfatnaður. Það vita þeir sem dottið hafa á bifhjólum, og ekki einu sinni á mikilli ferð, að það skiptir sköpum. Hrufl, ör og ljót sár og eitthvað þaðan af verra getur komið uppá þó ferðin sé lítil. Það er ekki barnaleikur að detta af hjóli,“ segir Steinþór Jónas Einarsson, í samtali við Dagskrána. Þess má geta að Steinþór hefur á eigin skinni og fundið hvað það er að lenda í mótorhjólaslysi og eiga í því í langan tíma. Hvað með að reiða farþega? „Við getum talað um þetta út frá stóru hjólunum, en það gildir jafnframt um þau minni líka og er enn meira áberandi á þeim. Að hafa farþega breytir aksturseiginleikum allra mótorhjóla umtalsvert. Og ég legg áherslu á umtalsvert! Bremsuvegalengdir, beygjugeta og fleira breytist mikið. Takið það trúanlegt frá reynslu miklum mönnum að farþegi sem ekki kann almennilega að sitja mótorhjól getur sett sjálfan sig og ökumann í mikla hættu. Ef hann færir sig á hjólinu, reisir sig við í beygju þá breytir það snögglega stefnu hjólsins. Jafnvel svo að það sé illviðráðanlegt. Hvað ef slíkt kemur fyrir uppi á gangstétt, með farþega og gangandi vegfarendur í kring á 25 km/klst? Það er heilmikill hraði og margt getur farið úrskeiðis. Það er ekki að ástæðulausu að þetta er bannað, það er einfalt að segja það og ætti að vera farið eftir því,“ segir Steinþór.

Lögreglan fylgist með og hnippir í ökumenn

Í samtali við Lögregluna á Suðurlandi um málið kemur fram að Lögreglan fylgist með þessu og hnippi í krakka sem ekki eru með búnað eða hjálma á hreinu og fari ekki að settum reglum. Þá sé sérstaklega mikilvægt að stoppa það af að fjölmenna á hjólunum. Það auki slysahættuna umtalsvert. Þá biðlar lögregla til foreldra að fara yfir málin með börnunum og hafa hlíðarfatnað til reiðu svo koma megi í veg fyrir alvarleg slys á fólki.

Nýjar fréttir