-7.1 C
Selfoss

Fyrsta skóflustungan að gestastofu við Kirkjubæjarklaustur

Vinsælast

Það var mikil hátíð í Skaftárhreppi sunnudaginn 7. júní 2020 þegar tekin var fyrsta skóflustungan að byggingu gestastofu á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Gestastofan verður á Sönghól sem er í landi Hæðargarðs í Landbroti. Magnús Þorfinnsson gaf lóð og tók fyrstu skóflustunguna ásamt Ástu Berghildi Ólafsdóttur, formanni svæðisráðs vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra og Söndru Brá Jóhannsdóttur, sveitarstjóra Skaftárhrepps. Magnús hefur alltaf verið mjög áhugasamur um framkvæmdir og fagnaði því mjög að loks er komið að því að byggja.

Sönghóllinn

Saga Sönghóls er sú að þar hafi munkarnir frá Þykkvabæjarklaustri sungið þegar þeir komu að heimsækja nunnurnar í klaustrið á Kirkjubæ. Nunnurnar fóru upp í Sönghelli og sungu þar fyrir munkana. Þegar þeir sáust hlupu þær niður hlíðina og yfir mýrina þar sem nú er Kirkjubæjarskóli og hétu þar Glennarar. Eins og vera ber með örnefni telja sumir að Sönghóll sé sunnar í Landbrotinu, þar sem fyrst hafi sést til munkanna. Er þessi nafngift því skemmtilegt þrætuepli í sveitinni.

Brú yfir Skaftá

Fanney Ásgeirsdóttir, þjóðgarðsvörður bauð alla velkomna. Zbiegniew Zuchowicz og Bríet Sunna Bjarkadóttir fluttu tvö lög.

Það er skemmtileg frá því að segja að listamaðurinn Kjarval taldi að náttúrufegurðin á Kirkjubæjarklaustri nyti sín best frá þeim sjónarhóli þar sem gestastofan rís. Kjarval rissaði upp mynd af brú yfir Skaftá sem átti að byggja til að fólk gæti gengið yfir í Landbrotið og notið þess að horfa yfir á Systrastapa, Systrafoss, Síðuna, Kaldbak og Öræfajökul. Þessi mynd var lengi í vinnuaðstöðu Jóns Björnssonar í sláturhúsinu á Klaustri og muna margir af eldri kynslóðinni eftir að hafa séð myndina. Myndin er þó horfin og stendur yfir umfangsmikil leit að henni. Hugmyndin er góð og er ætlunin að byggja göngubrú yfir ána og tengja þannig gestastofuna við þéttbýlið á Klaustri og þær gönguleiðir sem þar eru.

Þjóðgarðsverðir og gestastofur

Þjóðgarðsverðir á vestursvæði hafa verið fjórir, Ketill Sigurjónsson, Snorri Baldursson, Orri Páll Jóhannsson og starfandi þjóðgarðsvörður sem er Fanney Ásgeirsdóttir frá Ljótarstöðum í Skaftártungu. Þjóðgarðurinn rekur nú fimm gestastofur. Þær eru: Gljúfrastofa í Ásbyrgi, Snæfellsstofa á Skriðuklaustri, Gamlabúð á Höfn í Hornafirði, Skaftafellsstofa í Skaftafelli og Skaftárstofa á Kirkjubæjarklaustri, sem rekin er í húsnæði Skaftárhrepps og í samvinnu við hann, þangað til nýja gestastofan rís.

Vestursvæðið er mikil víðátta á hálendinu

Magnús Þorfinnsson, landeigandi, og Kári Kristjánsson, landvörður

Á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs eru einstök náttúrufyrirbæri eins og Lakagígar, Eldgjá og Langisjór. Þar eru líka Nýidalur og Tungnáröræfin þar sem eru margar eldstöðvar. Síðast en ekki síst er Vonarskarð sem er einstakt háhitasvæði og vatnaskilin milli norðurs og suðurs. Mjög gott samstarf hefur verið milli heimamanna og þjóðgarðs á þessu svæði. Þjóðgarðurinn nær yfir það svæði sem er afréttur bænda og ganga þar saman ferðamenn, kindur og landverðir allt sumarið.

Texti og ljósmyndir Lilja Magnúsdóttir. Kynningarfulltrúi Skaftárhrepps.

 

 

Nýjar fréttir