-6.6 C
Selfoss

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands: Sóknarfæri á Suðurlandi

Vinsælast

Hvaða skilaboð færir þú Sunnlendingum í aðdraganda forsetakjörs?

„Ég þakka Sunnlendingum þá velvild og gestrisni sem þeir hafa alla tíð sýnt mér og okkur hjónum. Síðastliðin fjögur ár hefur leið okkar oft legið austur fyrir fjall og alltaf er jafn vel tekið á móti okkur. Fyrsta heimsóknin eftir embættistöku var að Sólheimum í Grímsnesi þar sem Reynir Pétur og fleiri tóku á móti okkur – nú þarf maður að ná í geisladiskinn með munnhörpuleik hans! Nokkrum vikum síðar flutti ég opnunarávarp á ráðstefnu ungmennaráða á Suðurlandi á Hvolsvelli. Þar minnti ég krakkana á að sýna seiglu og dug, gefast ekki upp þótt á móti blási en hika ekki heldur við að leita aðstoðar þegar þurfa þyki, því að í öflugu samfélagi fá allir jöfn tækifæri til að sýna hvað í þeim býr; í öflugu samfélagi stendur fólk saman þegar á reynir.

Opinber heimsókn í Bláskógabyggð árið 2017 kemur líka í hugann, ferð um Suðurland með þýsku forsetahjónunum síðastliðið og fjölmargir aðrir viðburðir. Þannig hefur mér hlotnast sá heiður ár hvert að afhenda Menntaverðlaun Suðurlands og styrki úr Vísinda- og rannsóknasjóði Suðurlands og fagna þar með duglegum nemum á framabraut.

Síðustu vikur höfum við fjölskyldan haldið á vinsæla ferðamannastaði og hvatt landann til ferðalaga hér innanlands í sumar. Í þeim efnum minnist ég fróðlegra samræðna við forystufólk í Vík í Mýrdal. Höggið er þungt þar eins og víða en engan uppgjafartón var að heyra, þvert á móti kenndi þar eldmóðs og þolgæðis. Og í fyrradag kynntum við Eliza okkur stórhuga áform um uppbyggingu miðbæjarins á Selfossi, það er heldur betur spennandi verkefni.“

Hvert er hlutverk forseta Íslands?

„Forseti hefur skýrum skyldum að gegna í okkar stjórnskipun. Samkvæmt stjórnarskrá er forseta samt ekki ætlað að taka þátt í stjórnmálum frá degi til dags. Hann er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum og ráðherrar bera ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum. Forseti lætur þó til sín taka á örlagastundum, við stjórnarmyndanir og stjórnarslit. Þá hefur sú hefð skapast að áskoranir tugþúsunda kjósenda geti leitt til þess að forseti leggi lög í dóm kjósenda. Hér þarf ríkur þjóðarvilji að koma fram; til dæmis hefði það varla þótt sæmandi að ég hefði orðið við óskum um 5.000 kjósenda að synja lögum um búvörusamning staðfestingar á sínum tíma.

En starf forseta liggur svo miklu víðar en á sviði stjórnmála og stjórnskipunar. Forseti á að láta sig allt samfélagið varða. Forseti á að stuðla að einhug frekar en sundrung, láta fólk finna að enginn sé settur skör neðar en aðrir. Forseti á ekki að kynda undir ófriðarbál í samfélaginu. Hann á ekki að ala á ótta og tortryggni, hann á ekki að tala niður til þeirra sem hann er ósammála. Forseti á að efla þær undirstöður samfélagsins sem við getum öll sameinast um, grunngildi eins og jafnrétti og umburðarlyndi, frelsi og fjölbreytni. Forseti á að hlúa að sameiginlegum menningararfi okkar og sögu, ekki með innantómu oflofi heldur með því að tala af hreinskilni um það sem miður fór en stolti um það sem vel gekk, sem er blessunarlega mun viðameira þegar við Íslendingar eigum í hlut.“

Einhver orð að lokum?

„Ég hvet kjósendur til að nýta sinn rétt í væntanlegu forsetakjöri og bind vonir við að það sé ekki rétt sem nafni minn Ágústsson sagði mér eitt sinn að sagt væri um Flóamenn, og þá kannski fleiri Sunnlendinga, að þeir væru svo hógværir að þeir gætu hvorki sagt já né nei!“

 

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir