-4.1 C
Selfoss

Opið bréf til Vegagerðarinnar og sveitarfélagsins Árborgar

Vinsælast

Eins og allir vita  liggur þjóðvegur eitt í gegnum Selfoss. Umferðarþungi á veginum er gríðarlegur og á þeim fáu árum sem ég hef búið í Árborg hefur umferðarþunginn farið vaxandi að mínu mati. Það er þó ljós í myrkrinu, en til stendur að flytja þjóðveginn út fyrir bæinn með tilkomu nýrrar brúar, norðan við Selfoss. Umferðarþungi vegarins er þó ekki eina vandamálið sem háir Austurveginum. Fyrir skömmu átti ég leið inn á Austurveg. Ég þurfti að bíða smá stund eftir að komast inn á veginn, eins og vani er vegna umferðar, en í millitíðinni keyrðu þrír bílar framhjá mér vestur Austurveginn. Bíll 1 og 2 hægðu á sér og stoppuðu fyrir gangandi vegfaranda sem var að ganga á gangbrautinni yfir Austurveg til móts við Landsbankann. Bíll 3 gaf hins vegar í, sennilega af því bílstjórinn hefur ekkert skilið í seinagangi hinna sem hægðu á sér og ætlaði að taka framúr bíl 1 og 2 hægra megin. Ég ítreka að ökumaðurinn ætlaði sér að taka fram úr og það hægra megin og við gangbraut. Bíll 3 var kominn samhliða bíl 1 þegar hann náði að snarstoppa enda var gangandi vegfarandi að ganga á gangbrautinni á beinni leið í veg fyrir ökutæki 3. Þetta er vítavert gáleysi og því miður ekki í fyrsta né annað og alls ekki í þriðja skiptið sem ég verð vitni að einhverju þessu líku á Austurveginum. Til að leysa þetta vandamál og forða slysi, því ég veit það á eftir að verða, þá þarf að mínu mati að þrengja Austurveginn svo að það sé einfaldlega ekki hægt að taka framúr. Að aðstæðurnar bjóði hreinlega ekki uppá það. Að auki má lækka umferðarhraða mjög og merkja gangbrautir betur og setja ljósastýringu við fleiri gangbrautir. Ég bendi í þessu sambandi á greinarskrif eldri borgara í Árborg hér í Dagskránni um ákall um úrbætur vegna gangbrautarmála. Framúrakstur á Austurvegi er bannaður og á einfaldlega ekki að eiga sér stað. Málaðar merkingar stoppa ekki kærulausa bílstjóra.

 

 

Anna Margrét Ólafsdóttir Briem, íbúi í Árborg.

Nýjar fréttir