Rakel Sveinsdóttir var kosin formaður FKA (Félags kvenna í atvinnulífinu) á aðalfundi félagsins sem haldin var í Iðnó fyrir skömmu. Í framboði til formanns var einnig Fjóla G. Friðriksdóttir. Fráfarandi formaður er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sem hefur gegnt formennsku félagsins frá því vorið 2013.
Frambjóðendur í stjórn voru fjórar konur í þrjú sæti. Kosningu í stjórn hlutu Áslaug Gunnlaugsdóttir, Guðrún Ragnarsdóttir og Ragnheiður Aradóttir, en Inga Sólnes hlaut ekki kosningu. Að auki sitja áfram í stjórn frá fyrra ári Anna Þóra Ísfold, Kolbrún Hrund Víðisdóttir og Danielle Neben.
FKA saman stendur af ríflega eitt þúsund leiðtogakonum á öllum sviðum atvinnulífsins og telst yfir helmingur þeirra til forstjóra, framkvæmdastjóra og eiganda fyrirtækja. Meðal stærri verkefna FKA síðastliðin ár hefur verið átak til að auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum, aukin hlutdeild kvenna í stjórnum félaga og nú síðast verkefnið Jafnvægisvogin, sem ætlað er að stuðla að aukinni hlutdeild kvenna í efra lagi fyrirtækja.
FKA er gífurlega öflugt félag
„Ég er fyrst og fremst þakklát fyrir stuðninginn enda er FKA gífurlega öflugt félag sem hefur svo sannarlega sýnt og sannað mikilvægi sitt til að stuðla að frekari fjölbreytileika í atvinnulífinu. Við styðjum leiðtogakonur um land allt með mjög virku félagsstarfi og ég mun meðal annars leggja meiri áherslu á starf landsbyggðardeilda, sem og framhald á auknum sýnileika kvenna í fjölmiðlum, svo ekki sé talað um Jafnvægisvogina sem verður okkar stærsta verkefni næstu árin. Með mér í stjórn eru öflugar konur og það má alveg búast við því að við munum láta til okkar taka strax í lok sumars þegar starfsárið okkar hefst fyrir næsta haust og vetur,” segir Rakel Sveinsdóttir nýkjörinn formaður.
Framkvæmdastjóri FKA er Hrafnhildur Hafsteinsdóttir en í félaginu starfa 14 nefndir, deildir og ráð sem um 100 félagskonur sinna yfir árið. Á aðalfundi félagsins voru Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur og fráfarandi stjórnarkonum þökkuð góð störf á liðnum árum, en úr stjórn gengu Herdís Jónsdóttir og Áshildur Bragadóttir.