-6.1 C
Selfoss

Okkar neysla – okkar ábyrgð

Vinsælast

Á þessum einkennilegu tímum í samfélaginu er gott að staldra við og huga að framtíðinni og hvernig við sjáum hana fyrir okkur. Tíðrætt hefur verið um úrgangsmál í gegnum árin og er eingöngu tæpt ár síðan nánast öll heimili á Suðurlandi hófu lífræna flokkun sem var mjög góð þróun og hefur komið vel út. Í Grímsnes- og Grafningshreppi búa um 500 íbúar sem allir flokka í lágmark fjóra flokka á heimilum sínum, lífrænan úrgang í brúntunnu, plast í græntunnu, pappa í blátunnu og annan úrgang í grátunnu. Á sama tíma hafa íbúar verið hvattir til að safna málmum og gleri á heimilum sínum og fara með í þar til gerð ílát á Gámastöðina Seyðishólum.

Í sveitarfélaginu okkar eru einnig tæplega 3000 frístundahús sem mörg hver eru notuð allan ársins hring. Hingað til hafa frístundahúsaeigendur eingöngu haft kost á að fara með flokkaðan úrgang á Gámastöðina Seyðishólum en nú standa til miklar breytingar. Til þess að koma til móts við eigendur frístundahúsa og gera þeim auðveldara fyrir að flokka heimilisúrgang hefur  sveitarfélagið hrundið af stað metnaðarfullu grenndarstöðvaverkefni í samstarfi við TERRA. Á næstu dögum verða teknar í notkun grenndarstöðvar á fimm stöðum í sveitarfélaginu og á hverri stöð verður hægt losa sig við heimilisúrgang í sjö flokka; plast, pappa, málm, gler, lífrænt, blandað og skilaskyldar umbúðir. Allt annað þarf að fara með á Gámastöðina Seyðishólum. Á þessum grenndarstöðvum verður einnig notast við lita kóða fyrir úrganginn líkt og á heimilunum. Við þessa breytingu verða flokkunarmöguleikarnir fyrir frístundahús með því besta sem þekkist á landsvísu og er Grímsnes- og Grafningshreppur fyrsta sveitarfélagið á landinu sem setur upp slíka flokkunargáma. Við hönnun var horft til litamerkinga á bæði tunnum og gámum sem auðveldar notendum enn frekar að muna hvaða úrgangur fer hvert, úrgangurinn er tengdur við litinn sem gerir upplifunina og notkunina betri, jákvæðari og eftirminnilegri. Með þessum aðgerðum vonumst við til þess að flokkun í frístundahúsum muni aukast sem gerir okkur kleift að senda stærri hluta úrgangsins til endurvinnslu. Þannig leggjum við okkar af mörkum til verndar náttúru og umhverfis. Jafnframt vonumst við til að aukin flokkun skili sér í lægri kostnaði við sorphirðu og sorpeyðingu fyrir alla fasteignaeigendur í sveitarfélaginu.

Munum að okkar neysla er okkar ábyrgð.
Höfundur:  Ása Valdís Árnadóttir, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps

Nýjar fréttir