-5 C
Selfoss

Aldinn organisti fór á tónleika með Tvennum tímum á Flúðum

Vinsælast

Aldinn organisti lagði leið sína sl. sunnudag í Félagsheimili Hrunamanna og naut góðrar skemmtunar hjá vel þjálfuðum kór heimamanna og ungum tveggja mánaða kór skipaðan átta nemendum úr Tónsmiðjunni. Stjórnandi og undirleikari var Stefán Þorleifsson. Fyrri hluta tónleikanna söng unga fólkið einsöng á móti eldri kórnum, sem söng tví- eða fleirradda lög við undirleik stjórnandans. Eftir dálítið kaffihlé söng kór ungmennanna með einsöngvurum og rappara og síðan var safnað í hljómsveit með eldri kórnum og færðist þá meira fjör í leikinn.

Hljómsveitina leiddi Anna Þórný klarinettleikari, Loftur Erlings sýndi frábæra takta við rafbassann og trommu- og gítar- og munnhörpuleikari létu ekki sitt eftir liggja. Fullur salur af gestum fagnaði listamönnunum, fékk aukalag en listamenn blóm úr hlýjum rósagarði á Flúðum. Kynnirinn, sr. Óskar í Hruna, stóð vel í stöðu sinni, en Óskar Snorri úr sömu ætt hóf með söng sínum þessa skemmtilegu tónleika, sem mótuðust af gleði, léttleika og smekkvísi.

Vonandi er pláss fyrir fjöður í hatt stjórnandans, en margir hlýddu á glæsitónleika Jórukórsins undir stjórn þess sama Stefáns upp í Skálholti eða Selfosskirkju og tókust frábærlega.

En hver flautaði svo glæsilega á varir sínar einar saman? Aldinn organisti var svo heppinn að sitja hjá Björgu formanni, sem hvíslaði á móti: Siggi í Skarði! Þá var kórinn, Tvennir tímar, að syngja slagarann: Það er draumur að vera með dáta. Æskuminning Ágústs Péturssonar bar þó af eftir smekk undirritaðs.

Rangæingar geta hlakkað til, því frést hefur að kórinn Tvennir tímar stefni austur þangað á Uppstigningardegi 25. maí.

-IHJ

Nýjar fréttir