-6.9 C
Selfoss
Home Fréttir Tímamót í Tónlistarskóla Rangæinga

Tímamót í Tónlistarskóla Rangæinga

0
Tímamót í Tónlistarskóla Rangæinga
Húsnæði Tónlistarskóla Rangæinga á Hvolsvelli.
Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.
Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

Um þessar mundir höldum við upp á að 60 ár eru liðin frá því að Tónlistarskóli Rangæinga hóf göngu sína. Sextíu ár eru bæði skammur og langur tími. Langur tími mannsævinnar – en skammur tími í sögu þjóðar.

Það er í raun mögnuð þróun sem átt hefur sér stað í menntunar- og menningarlífi þjóðarinnar á þessum 60 árum. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að Háskóli Íslands var stofnaður 1911 en víða í Evrópu voru komnir háskólar á 17. öld. Sömu sögu má segja um tónlistarnámið.

Við hugsum með miklu þakklæti til frumkvöðulsins, Björns Fr. Björnssonar, sýslumanns og til þeirra sem ýttu úr vör í upphafi þegar skólinn hóf göngu sína. Ég minnist þess að fyrsti kennarinn, Guðmundur Gilsson, kom með mjólkurbílnum frá Selfossi einu sinni í viku og Pálmi Eyjólfsson ók kennaranum heim að kveldi.

Við höfum verið gæfusöm í gegnum tíðina og laðað til okkar góða stjórnendur og kennara. Margir afbragðsnemendur skólans hafa náð langt og fengum við að njóta hæfileika þeirra á tónleikum í vetur, ásamt núverandi kennurum skólans og nemendum. Í tilefni afmælisins voru haldnir meira en 20 tónleikar, vítt og breytt um sýsluna sem allir tókust vel.

Skólinn er byggðasamlag sveitarfélaga í Rangárvallsýslu og í skólanefnd eru sveitarstjórar sveitarfélaganna þannig að stjórnendur sveitarfélaganna eru mjög tengdir starfsemi skólans. Skólinn hefur verið nútímavæddur og starfssviðið hefur verið víkkað. T.d. er nú spennandi Suzuki nám þar sem yngsti nemandinn er 4 ára og rythmisktnám en þar er elsti nemandinn 81 árs. Klassíska deildin er svo alltaf sterk. Þá er öflugt forskólastig í skólunum á Hvolsvelli, Hellu og Laugalandi.

Víst er að tónlistarnám víkkar sjóndeildarhring nemenda og tónlistarnám verður aldrei af fólki tekið. Auk þess sem tónlistin göfgar lífið. Tónlistarflutningur og tónlistarlíf er líka grundvöllur samstarfs og samvinnu. Þetta sjáum við vel þegar við horfum til kóranna okkar, hvort heldur í skólunum eða hjá hinum fullorðnu. Það er enginn að velta fyrir sér hreppamörkum þegar kórarnir syngja.

Á tónleikum skólans í Hvolnum, þann 1. maí, vígðum við nýjan flygil sem er í eigu sveitarfélagsins Rangárþings eystra. Kórar sveitarfélagsins hafa mjög hvatt til þess að við endurnýjuðum hljóðfæri í félagsheimilinu sem nú hefur verið gert. Hljóðfærið er af gerinni Yamaha og var Guðjón Halldór Óskarsson, kennari tónlistarskólans og kórstjórnandi, okkur til aðstoðar við valið. Eitt sinn orti sá, er ók Guðmundi Gilssyni aftur heim á Selfoss eftir kennslu á Hvolvelli, ljóð sem heitir Svarti flygillinn og mér finnst það vel viðeigandi í tilefni hljóðfærakaupanna.

Á gólfinu er flygill, kolsvartur kostagripur.
Á hverri nótu er hinn gamli virðingarsvipur.
Strengirnir titra og tónarnir ylja þér.
Hvílík upplifun, ágæti Rangæingur
alltaf þarf neistann, sálina og kattlipra fingur.
Kraftinn sem lyftir kúnstinni fornu hér.

Í hljómnum er vorið, ástin og allt þar á milli,
en aðeins ef tónninn er hreinn og fluttur af snilli.
Að njóta, gleðjast og nema er innri þörf.
Af músík verður þú bjartsýnn og betri maður,
þú byrjar daginn syngjandi og morgunglaður.
Hógværi er listin, en hugljúf við öll þín störf.

Það er von okkar að þetta glæsilega nýja hljóðfæri muni enn auka metnað og snilld þeirra sem að tónlistarflutningi koma í héraði. Sveitarstjórnarmönnum er þakklæti efst í huga á þessum tímamótum. Þakklæti til allra þeirra sem komið hafa að starfi Tónlistarskóla Rangæinga fyrr og síðar.

Ísólfur Gylfi Pálmason, svetarstjóri Rangárþings eystra.