-2.2 C
Selfoss

Ég er mjög trú bókunum sem ég les

Vinsælast

Árný Fjóla Ásmundsdóttir er lestrarhestur vikunnar.

Árný Fjóla Ásmundsdóttir er bústett í Berlín en alin upp á Norðurgarði á Skeiðum. Hún er dóttir Matthildar Elísu Vilhjálmsdóttur sérkennslustjóra og Ásmundar Lárussonar bónda. Árný er gift Daða Frey Péturssyni og saman eiga þau eins árs dóttur, Áróru Björg. Árný er í fjarnámi í mannfræði frá Háskóla Íslands. Hún er einnig myndlistarkona og leiðsögukona í Berlín. Áhugamál hennar eru myndlist, mannlíf og matargerð. 

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er að lesa Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson. Verandi með aðsetur erlendis þá heillast ég núverið af svona rammíslenskum bókmenntum. Þetta er líka síðasta bókin í bókaforðanum mínum hér í Berlín.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Íslenskar sagnir með lýsingum á lífi á Íslandi, sérstaklega forðum daga. Með draumkenndum lýsingum um fallega náttúru. Ekki verra ef þar leynast einnig einhverskonar yfirnáttúrulegir kraftar. Allskyns bækur um mannlíf, etíska hópa, minnihlutahópa og fólk í framandi löndum eru einnig í uppáhaldi. 

Ertu alin upp við bóklestur?

Móðir mín er leikskólakennari og sérkennslustjóri. Hún vann einnig á bókasafni þegar ég var lítil. Hún var mjög duglega að lesa fyrir mig og ég var alltaf með bækur í kringum mig. Ferðirnar í bókasafnið á Selfossi voru ófáar og alltaf spennandi.

Hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég er mjög trú bókunum sem ég les. Ég klára alltaf bók, þó svo að mér þyki hún hundleiðinleg. Langoftast les ég líka bara eina bók í einu til að halda tryggð minni. Þegar ég er í háskólanáminu les ég mér því lítið til skemmtunar því þá vil ég halda tryggð minni við skólabækurnar. 

Átt þér einhverja uppáhaldshöfunda?

Michael Jackson mannfræðingur. Hann er með svo stórkostlegar pælingar, oft mjög ýktar, flóknar og furðulegar en engu að síðar áhugaverðar. Bók hans At Home in the World breytti mínum hugsanagangi. Að vera heima í heiminum, hvenær er maður heima? Tengdi mjög við þessar pælingar, verandi sjálf mikið á flakki en alltaf „heima“. 

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Já margar, sérstaklega þegar ég var unglingur. Þá sökkti ég mér svo í glæpasögur að ég svaf oft ekki heilu næturnar. Mér þykir samt svo gott að sofa, að núorðið með ungabarn á heimilinu, vel ég oft svefninn fram yfir bókina. 

En að lokum Árný, hvernig bók myndir þú skrifa ef þú væri rithöfundur?

Etnógrafíu. Rannsaka mannlíf og skrifa um það.

Nýjar fréttir