-5.5 C
Selfoss

Múlakotsskóli fær andlitslyftingu

Vinsælast

Múlakotsskóli á Síðu er 111 ára gamalt hús sem kúrir undir hlíðinni í Múlakoti. Nýlega voru settir nýir gluggar og  skipt um klæðningu á suðurhlið skólans og lítur hún út eins og ný. Það var Þuríður Benediktsdóttir sem var formaður Menningarmálanefndar Skaftárhrepps sem hafði veg og vanda af því að fá styrk frá Minjastofnun og láta smíða glugga í skólann. Benedikt Lárusson, húsasmíðameistari, var svo fenginn til að vinna verkið.

Múlakotsskóli er merkilegt hús en þar var skólastarf  til ársins 1971 að nemendur af Síðunni fóru í Kirkjubæjarskóla á Kirkjubæjarklaustri. Árið 1907 voru sett fræðslulög sem skylduðu öll sveitarfélög til að sjá börnum á aldrinum 10 – 14 ára fyrir skólagöngu og fræðslu. Hörgslandshreppur tók þessi fyrirmæli alvarlega og byggði tvo skóla, á Kálfafelli og í Múlakoti, og hófst skólastarf  1909 á báðum stöðum. Múlakotsskóli er eitt fárra skólahúsa frá þessum tíma sem enn stendur og er vel við haldið.  Húsið var friðað 1982.

Það er athyglisvert að það voru aðeins tveir skólastjórar í Múlakotsskóla, feðgarnir Þorlákur Vigfússon og Bjarni sonur hans.  Voru þeir jafnframt bændur í Múlakoti. Sólrún Ólafsdóttir á Klaustri kenndi við skólann einn vetur, 1966 – 1967, en þá var Bjarni veikur. Sólrún minnist þessa vetrar með mikilli gleði, hún hafði gaman af að kenna krökkunum. Þá var bara einn kennari sem kenndi allar greinar.  Það voru tvær deildir, yngri og eldri, og var hvor deild tvær vikur samfellt í skólanum, en þá var skipt. Sólrún var sjálf nemandi í Múlakotsskóla en hún ólst upp á Þverá. Á þeim árum hjólaði hún í skólann á mánudögum en gisti yfir vikuna hjá fjölskyldunni í Múlakoti. Henni leið vel í skólanum og segir að Bjarni hafi verið afbragðskennari, sagði krökkunum frá mörgu sem ekki stóð í bókunum og kenndi þeim þannig að margt situr enn í minninu.

Í Múlakotsskóla var skólastarf á daginn en á kvöldin og á tyllidögum var húsið menningarhús. Þar var kosið, fundað og þar voru haldin þorrablót, jólatrésskemmtanir og dansleikir. Minnist Sólrún þess að hafa komið á dansleiki í húsinu allt frá 12 ára aldri, var oft þröngt á þingi og mikið dansað. Eftir að skólahald lagðist af hafa listamenn fengið að gista og vinna í húsinu, vísindamenn hafa hreiðrað um sig, saumastofan Hnúta var þar um tíma og síðast var Pokastöðin, sem saumaði margnota burðarpoka,  með aðstöðu í Múlakotsskóla.

 

Lilja Magnúsdóttir

Kynningarfulltrúi Skaftárhrepps

 

Nýjar fréttir