7.8 C
Selfoss

Ástin og ófæra heiðin

Vinsælast

Það var óvenju fámennt en áberandi góðmennt á málþingi Bókabæjanna í Tryggvaskála þetta árið. Úti geisaði appelsínugul viðvörun, Hellisheiðin var lokuð og útlitið fremur hvítt. Það kom þó ekki í veg fyrir að bókelskt fólk hittist og ræddi um ástina af öllu hjarta.

Raunar mætti segja að inniteppuástandið hafi skapað einhverskonar baðstofustemningu. Söngvaskáldið Myrra Rós sagði sögur í tali og tónum áður en fagurskipaður hópur heldra fólks flutti Ferðalok Jónasar Hallgrímssonar. Skafbylurinn barði að dyrum en varð undan að víkja fyrir augnaráði Hildar Ýrar Ísberg sem sagði frá ástum í ungmennabókum, frá Njálu til nærtækari tíma.

Um tíma leit raunar út fyrir að málþingið yrði alls ekki svo fámennt, leikhópur Leikfélags Selfoss tók yfir rímið nokkra stund. Þau sýndu okkur þrjár myndir af ást úr Djöflaeyjunni sem fer á fjalirnar 6. mars, og gáfu um leið áhorfendum karnivalískt tækifæri til að blandast í hópinn og taka þátt í andblænum. Þarna, góðir hálsar, er von á góðu.

Eftir lætin í leikhópnum var rétt að taka hlé og bæta í kaffibollana. Það var nefnilega prýðilega fært um salinn ólíkt venju og mátti líklega þakka ófærðinni utandyra fyrir. Að hléi loknu kom svo að stóru stundinni, afhendingu Sparibollans 2019. Stundin var ekki einungis stór fyrir aðstandendur og verðlaunahafa, heldur var á þessari stundu allt undir í tæknimálunum. Þau runnu þó eins og lækur að vori, dómnefndarfulltrúarnir, Eyrún Lóa Eiríksdóttir og Sverrir Norland, sem og verðlaunahafinn, Ragna Sigurðardóttir birtust gestum uppá skjá og þá voru úrslitin kunngjörð.

Ragna hlýtur verðlaunin fyrir bókina Vetrargulrætur. Í henni er ekki bara ein góð ástarjátning heldur er bókin sjálf ein samfelld ástarjátning til lífsins, fegurðar og sköpunar og litapallettu jarðarinnar. Þar er að finna ást í ólíkum formum og að lestri loknum situr eitthvað eftir innra með manni, hún skilur eftir ást í hjartanu.

Í bókinni er líf og litir og hvatning til allra þeirra sem vilja skapa og skrifa, og eins og Ragna sagði sjálf við verðlaunaafhendinguna, þá er það ástin á bókunum sem knýr okkur áfram.

Loka fyrirlestur kvöldins var svo í höndum okkar kæra Jóns Özurs sem dró saman ýmsar ástarjátningar úr bókmenntasögunni, einkenni þeirra og merkingu. Ljóst er að ástin dugir að eilífu og hefur að eilífu dugað. Lokaorð og tóna átti hin óviðeigandi en vel meinandi Myrra Rós.

Bókabæirnir vilja þakka öllum þeim sem sóttu þennan viðburð og hafa gert gegnum tíðina. Svona lagað krefst vinnu, skipulags og hugmyndaflugs og það er okkur mikils virði að sjá fólk koma á staðinn og njóta dagskrárinnar.

Næstu viðburðir á vegum Bókabæjanna eru þann 21. mars, en þá fer fram Barnabókahátíð í Brimróti að morgni en seinni hluta dagsins verður að venju Margmálaljóðakvöld í Listasafninu í Hveragerði. Takið hann frá – takk fyrir okkur!

 

Nýjar fréttir