7.8 C
Selfoss

„Tilfinningin er bara geggjuð!“

Vinsælast

Daði og Gagnamagnið gerðu sér lítið fyrir og unnu Söngvakeppnina sl. laugardag og ljóst að þau verða fulltrúar Íslands í Eurovision sem haldin verður í Rotterdam í maí.

Daði og Gagnamagnið enduðu með 118.643 atkvæði eftir úrslitaeinvígið. Hljómsveitin Dimma endaði í öðru sæti með 80.183 atkvæði.

„Tilfinningin er bara geggjuð,“ sagði Daði í viðtali við Dagskrána. „Það var alltaf planið í þetta skiptið að reyna að komast eins langt og við gætum og það er bara ennþá planið.“

Framundan taka nú við fundir hjá RÚV þar sem lagðar verða línurnar hvernig atriðið verður í lokakeppninni ásamt því hvernig ferðalaginu til Hollands verður háttað. Daði segir að atriðið verði svipað, enda var lagið samið út frá atriðinu en ekki öfugt. Daði gerir ráð fyrir að fara á fullt í að koma laginu á framfæri víðar. Nú þegar nýtur lagið mikilla vinsælda víða um Evrópu og trónir m.a. á toppnum á veðmálssíðum þegar þetta er skrifað.

Daði segist fara fljótlega aftur til Berlínar, þar sem hann býr. Hann kemur til með að vinna að mestu þaðan. „Takk fyrir stuðninginn,“ eru hans lokaorð til Sunnlendinga.

Það verður spennandi að fylgjast með ferlinu á komandi mánuðum en við höfum fulla trú á að Sunnlendingarnir verði íslensku þjóðinni til sóma.

Nýjar fréttir