-8.3 C
Selfoss

Áhugaverð tíðindi úr bæjarstjórn Svf. Árborgar

Vinsælast

Sá óvenjulegi atburður átti sér stað á bæjarstjórnarfundi Svf. Árborgar þann 19. febrúar sl.að á dagskrá fundarins var m.a. tillaga frá bæjarfulltrúum sjálfstæðisflokksins sem sveitarstjóri Bláskógabyggðar er skráður höfundur að.Það hlýtur að vera fordæmalaust að æðsti embættismaður í nágranna sveitarfélagi skuli stíga með svo afdráttarlausum hætti inn í pólítíska umræðu í öðru sveitarfélagi.

Svf. Árborg og Bláskógabyggð hafa um langt árabil átt í farsælu samstarfi í gegnum Héraðsnefnd Árnesinga og Samband sunnlenskra sveitarfélaga auk annars samstarfs sveitarfélaganna.  Það er ljóst að inngrip sveitastjóra Bláskógabyggðar í pólitísk álitaefni í Svf. Árborg er ekki til þess fallinn að styrkja það samstarf. Treysta bæjarfulltrúar D-lista í Árborg sér ekki til þess að semja sjálfir þær tillögur, bókanir eða fyrirspurnir sem þau vilja koma á framfæri? Það er skoðun undirritaðra að aðrir en starfandi sveitarstjóri í nágrannasveitarfélagi séu mun heppilegri aðstoðarmenn bæjarfulltrúanna.

Nú er það svo, að viðkomandi einstaklingur er fyrsti varabæjarfulltrúi sjálfstæðisflokksins í Svf. Áborg, en hefur þrátt fyrir það aldrei setið bæjarstjórnarfundi á kjörtímabilinu  heldur hafa nokkrir varabæjarfulltrúar sem eru neðar á lista komið inn í forföllum aðalmanna. Sú staðreynd  er engan veginn  í takt við þann áhuga sem varabæjarfulltrúinn og sveitarstjóri Bláskógabyggðar virðist hafa á bæjarmálum í Árborg.

Tillaga D-lista og breytingartillaga meirihluta Á, B, M og S-lista

Efnislega fjallaði áðurnefnd tillaga D-lista um að rannsakaðar yrðu einstaka embættisfærslur starfsmanna sveitarfélagsins vegna nauðsynlegra breytinga á ráðhúsi Svf. Árborgar. Starfsmenn sveitarfélagsins  njóta fulls trausts hjá bæjaryfirvöldum og því er þessi tillaga einstök að því leyti, að tilgangurinn hlýtur að vera sá að koma höggi á einstaka starfsmenn.

Meirihluti bæjarstjórnar tók þá afstöðu að fyrst að áhugi bæjarfulltrúa minnihlutans lægi í því að rannsaka staka framkvæmd væri einboðið að samþykkja það og skoða í leiðinni fleiri framkvæmdir sem farið hefur verið í á undanförnum árum með það  að markmiði að bæta verklag og verkferla vegna framkvæmda á vegum sveitarfélagsins.

Tilgangur meirihluta bæjarstjórnar er ekki sá að skoða einstakar embættisfærslur starfsmanna líkt og tillaga D-lista gerði ráð fyrir, heldur miklu frekar að fá fram upplýsingar sem geta nýst starfsmönnum og ekki síður kjörnum fulltrúum við að bæta verklag og verkferla til framtíðar.

 D-listi á móti nauðsynlegum framkvæmdum

Annað sem var áhugavert á áðurnefndum fundi bæjarstjórnar var sú afstaða bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að greiða atkvæði á móti lántöku til framkvæmda sem bæjarstjórn ákvað að ráðast i með samþykkt fjárhagsáætlunar sl. haust. Bæjarfulltrúarnir greiddu þar með atkvæði á móti því að sveitarfélagið óskaði eftir því við Lánasjóð sveitarfélaga að veita lán til nauðsynlegra framkvæmda. Má þar meðal annars nefna nýjan grunnskóla í Björkurstykki, nýjan 6 deilda leikskóla við Engjaland, byggingu nýs hjúkrunarheimilis og fjölnota íþróttahúsið sem nú er að rísa á Selfossvelli,svo fátt eitt sé nefnt. Það er dapurlegt að verða vitni að því á fundi bæjarstjórnar, sem er opinn og sendur út og allir geta fylgst með, að kjörnir fulltrúar skuli opinbera ábyrðarleysi sitt  og lýsa sig  andstæðinga  framkvæmda sem nauðsynlegar eru til þess að samfélagið haldi áfram að vaxa og dafna.

Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista
Eggert Valur Guðmundsson, S-lista
Helgi S. Haraldsson, B- lista
Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Á-lista
Tómas Ellert Tómasson, M-lista

 

Nýjar fréttir