-5 C
Selfoss

Akranesið lagði við höfnina í Þorlákshöfn í fyrsta sinn

Vinsælast

Ný vöruflutningaferja fyrirtækisins Smyril Line kom í fyrsta skipti til hafnar í Þorlákshöfn þriðjudaginn 14. janúar sl. Ferjan mun sigla vikulega milli Þorlákshafnar og Hirtshals í Danmörku með viðkomu í Færeyjum. Ferjan ber nafnið Akranes. Akranes, sem bar áður nafnið Bore Bank, var byggt árið 1998 í UMOE skipasmíðastöðinni í Noregi. Skipið er 138 metra langt, 23 metra breitt, 10.000 tonn og tekur 100 vöruflutningavagna í hverri ferð. Nýja ferjan bætist við fjögurra skipa flota Smyril Line. Hin skipin eru Norræna, Hvítanes, Eystnes og Mykines. Akranes er systurskip Mykines, sem hefur reynst mjög vel í siglingum milli Þorlákshafnar og Rotterdam.

Í samtali við Dasgskrána segir Linda Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyrilline Cargo á Íslandi: “Markmið með þessari nýju siglingarleið hjá Smyril Line er að stytta flutningstíma í inn- og útflutningi til/frá  Skandinaviu með skipi. Þetta er sama markmið og við höfðum þegar við hófum siglingar með Mykinesi fyrir tæpum þremur árum síðan.  Þá styttum við flutningstíma með skipi milli Íslansds og  meginlands Evrópu og hefur sú þjónusta gengið vel og fengið góðar viðtökur á markaðinum.  Með nýju áætluninni getum við sinnt viðskiptavinum mun betur og boðið uppá fleiri hafnir með stuttum flutningstíma.

Ný þjónusta í útflutningi

Þá segir Linda að flutningstími sé sérstaklega mikilvægur partur af allri aðfangakeðju vöru í inn- og útflutningi fyrir eyjabúa eins og Íslendinga. „Markmið Smyril Line er að búa til sem stystan flutningstíma sem um leið áreiðanlegar flutningsleiðir fyrir viðskiptavini á Íslandi og í Færeyjum. Í útflutningi erum við að bjóða uppá þjónustu sem ekki hefur verið reynd frá Íslandi áður þ.e.a.s. við afhendum fisk sem fer frá Íslandi á mánudagskvöldi um alla Evrópu aðfaranótt föstudags. Hingað til hafa útflytjendur ferskra fiskafurða  einungis getað sent með skipi fisk sem afhentur er á markað á mánudegi og þriðjudegi. Sá markaður er mjög mikilvægur Íslendingum og við sinnum þeim markaði með siglingum Mykines frá Þorlákshöfn til Rotterdam.  En nú geta útflytjendur einnig afhent fisk á föstudagsmorgni beint til neytenda eða á markað,“ segir Linda.

Þorlákshöfn orðin lykilhöfn í flutningum á sjó

Þegar Dagskráin ræddi við Elliða Vignisson, bæjarstjóra Ölfuss segir Elliði að markvisst hafi verið unnið að því að efla siglingar til og frá Þorlákshöfn og að Akranesið verði enn frekari lyftistöng fyrirhöfnina og sveitarfélagið þar sem umsvifin komi til með að aukast og þar með störf og afleidd atvinnustarfsemi. „Þorlákshöfn er í dag orðin lykilhöfn í flutningum á sjó til og frá Evrópu. Til að styðja við þessa þróun höfum við gert miklar endurbætur á hafnaraðstöðunni og þær framkvæmdir nýtast okkur í þessu vaxtarskrefi enda notar nýja ferjan sömu aðstöðu og Mykines. Þá eigum við tilbúnar lóðir á hafnarsvæðinu fyrir aukna starfsemi. Við höfum þá trú að á komandi árum muni inn- og útflytjendur leggja aukna áherslu á skemmri siglingu til að tryggja betur ferskleika vörunnar og draga úr kolefnisspori vegna flutninga en siglingin til og frá Evrópu tekur hátt í sólarhring skemmri tíma þegar siglt er hingað miðað við Faxaflóann. Það var mikil gæfa fyrir okkur hér í Ölfusi að fá til liðs við okkur fyrirtækið Smyril line.  Samstarfið við starfsmenn þar, bæði hér á landi og erlendis, er til mikil sóma.  Allt sem þau segja stenst og allt sem þau ætla sér tekst þeim.   Vonir okkar standa til þess að vinna með þeim að enn hærra þjónustu stigi og sjálfur er ég algerlega sannfærður um að Þorlákshöfn verður á fáum árum orðin lykilhöfn í inn- og útflutningi hér á landi, segir Elliði að lokum.

Nýjar fréttir