-6.8 C
Selfoss

Karlakór Rangæinga þrítugur

Vinsælast

Það blés hressilega föstudaginn 10. janúar. Víða var ófært og vegum lokað. Í félagsheimilinu Hvoli í Hvolsvelli blésu annarskonar vindar, þar sveif tónlistin yfir vötnum. Karlakór Rangæinga fagnaði þar þrítugsafmæli sínu, en hann var stofnaður þennan dag árið 1990. Buðu þeir því félögum fyrr og nú sem og öðrum aðdáendum til veislu, og var vel mætt þrátt fyrir lægðina.

Afmælisveislan markar spor kórsins inn í fullorðinsárin en einnig upphaf mikils afmælisárs framundan. Kynnirinn lofaði mörgum afmælistónleikum og uppskar mikið lófatak. Efnisskráin var því með hátíðlegra móti og öll hin rangæska, en öll lögin höfðu snertiflöt við héraðið. Ævinlega var annað hvort lag eða texti eftir Rangæing og í mörgum tilfellum hvort tveggja, utan eitt, en það var „Skarphéðinn í brennunni“ sú illmannlega héraðshetja. Oft voru höfundarnir kórmeðlimir, nýjir og gamlir, afmælið varð heimilislegra og hlýrra fyrir bragðið.

Rangæingar eiga kjarna í þessum kór, sem skiptir máli fyrir sveit og dreifðar byggðir. Að sjá hann síðan draga saman í tali og tónum svipmyndir úr héraðinu sem okkur er svo kært vekur stolt blandið þakklæti, fyrir að eiga völ á svona menningu í og úr heimabyggð. Í kórnum syngja ennþá stofnfélagar, sem hafa sveinar kátir sungið í 30 ár. Við hlið þeirra standa yngri sveinar, innfæddir og aðfluttir, hver og einn á sína vísu skrautfjöður í rangæskan hatt. Karlakórum fylgir einhver kraftur sem minnir á náttúruafl, sem bæði er hægt að beisla en líka leysa úr læðingi og njóta. Frá píanóinu flæðir svo fegursti fossinn, fullkomlega mótaður frá náttúrunnar hendi.

Líkt og í afmælum yfirleitt voru gjafir og góðir gestir. Afmælisbarnið færði gestum sínum Vörðukórinn að gjöf. Sá fyllti sviðið af litum og orku sem skilaði gæsahúð og brosum á vör. Að lokum sungu allir kórarnir saman, troðfylltu sviðið, og byggðu þar hamravegg og breyttu héraðssöngnum „Rangárþingi“ í hljómkviðu. Það er þakklátt í risjóttu tíðarfari að fá svona hátíð að gjöf og ekki laust við að slyddan skylli léttar á manni, eftir að hafa setið heilt kvöld í flóðbylgju kórsöngvanna.

 

Nýjar fréttir