Stofnfundur VR Suðurlandsdeildar var haldinn þriðjudagskvöldið 2. maí 2017 að Austurvegi 56 Selfossi. Þar með lauk sautján ára starfsemi Verslunarmannafélags Suðurlands sem var stofnað 15. maí 2000.
Verslunarmannafélag Suðurlands varð til við sameiningu tveggja félaga, Verslunarmannafélags Rangárvallasýslu og Verslunarmannafélags Árnessýslu. Stofnfundurinn var haldinn á Hlíðarenda á Hvolsvelli. Fyrsta stjórn VMS var þannig skipuð að Gunnar Kristmundsson frá Selfossi var kjörinn formaður, Kristján Hálfdanarson Hvolsvelli varaformaður, Ölver Bjarnason Selfossi gjaldkeri og Guðný Ósk Pálmadóttir Selfossi ritari aðrir í stjórn voru Unnur Þórðardóttir Hellu, Anna Sæmundsdóttir Hvolsvelli og Jóna Jónsdóttir Selfossi. Fjórir hafa gengt formennsku í félaginu á þessum tíma. Þessir formenn eru Gunnar Kristmundsson sem var formaður tvisvar sinnum, Hansína Stefánsdóttir, Margrét Ingþórsdóttir og Gils Einarsson.
Starfsemi VMS þessi ár hefur verið talsvert umfangsmikil og þá aðallega á sviði kjara- og réttindamála félagsmanna. Auðvitað skiptast á skyn og skúrir hjá litlu stéttarfélagi eins og hjá öðrum, stundum er siglt í stormi og stundum í logni og ládauðum sjó. Þó saga VMS sé aðeins sautján ár hefur mikið þokast í réttindamálum félagsmanna sem að hluta til hefur náðst með öflugu samstarfi við önnur félög innan Landsambands íslenskra verslunarmanna. Reynt hefur verið að sinna félagsmönnum eftir bestu getu. Kröfurnar til stéttarfélaganna hafa aukist verulega á síðustu árum. Fólk sættir sig ekki við skerðingar á greiðslum úr sjúkrasjóði. Sjúkrasjóður VMS tryggði félagsmönnum sínum greiðslur í veikindum eða slysum sem svara ti 80% af meðallaunum síðustu sex mánaða, í allt að sex mánuði. Það var aldrei til umræðu að skerða þessa tryggingu eins og sum félög hafa þurft að gera. Við sameininguna eykst réttur félagsmannanna upp í 80% af meðallaunum í níu mánuði og er það stórt skref í réttindum þeirra sem verða frá vinnu vegna veikinda eða slysa. Einnig fjölgar möguleikum félagsmanna í orlofsmálum ofl.
Sameining við VR hefur tekið nokkuð langan tíma. Fyrir u.þ.b tveimur árum var á vegum VMS ráðist í óformlega könnun á hugmyndum félagsmanna um sameiningu við önnur stéttsrfélög á svæðinu. Félögin sem könnunin náði til voru VR, Verslunarmannafélag Suðurnesja og Báruna stéttarfélag. Könnunin leiddi það í ljós að flestir vildu sameiningu við VR þá Báruna og síðast VS. Ákveðið var á aðalfundi 2016 að ræða við fyrrnefndu félögin tvö sem mestur áhugi var fyrir.
Lagðar voru fyrir félögin 22 spurningar og svöruðu þau þeim. Þessi svör voru svo notuð til kynningar fyrir félagsmenn VMS. Á aukaaðalfundi sem var haldinn fimmtánda nóvember 2016 var samþykkt tillaga meirihluta stjórnar VMS að ganga til viðræðna við VR um sameiningu. Lagabreyting fór fram á fundinum um að rafræa alsherjaratkvæðagreiðsla færi fram sem lokaniðurstaða sameiningarinnar að hálfu VMS.
Samningaviðræður fóru fram í nóv og des 2016, sem lauk með því að formaður VMS Gils Einarsson og formaður VR Ólafía B. Rafnsdóttir undirrituðu samning 30. desember 2017 með fyrirvara um félagslega afgreiðslu málsins. Atkvæðagreiðslan fór fram seinnipart janúarmánaðar 2017, þar sem um 85% þeirra sem greiddu atkvæði samþykktu sameininguna. Á aðalfundi VR sem var haldinn í mars 2017 var sameiningin samþykkt einróma.
Þriðjudaginn 2. maí 2017 var VR Suðurlandsdeild stofnuð og nær hún yfir sama félagssvæði og VMS hafði þ.e. Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur Skaftafellssýslu og er þetta stærsta félagssvæði á landinu eða um 22.000 ferkílómetrar sem er 1/5 af flatarmáli landsins. Kosning stjórnar deildarinnar fór þannig að Gils Einarsson var kjörinn formaður aðrir í stjórn eru: Ásta B Ólafsdótir sem er varaformaður, Arndís Anna Sveinsdóttir ritari, Jónas Yngvi Ásgrimsson , Sigríður Erlingsdóttir og Hólmfríður Stella H. Ólafsdóttir. Ég óska stjórn VR Suðurlandsdeildar sem og öllum félagsmönnum deildarinnar farsældar um ókomin ár.
Gils Einarsson, formaður VR Suðurlandsdeildar.