-6.6 C
Selfoss

Stórfenglegir tónleikar Mazowsze í Sunnulækjarskóla í gær

Vinsælast

Þegar gestir mættu á tónleika pólsku söng- og danssveitarinnar Mazowsze sem haldnir voru í Sunnulækjarskóla í gær var búið að breyta Fjallasal skólans í tónleikahöll. Hljómsveitin kom alla leið frá Póllandi á vegum pólska sendiráðsins og hélt tónleika víða á Íslandi og meðal annars á Selfossi.

Sungu Nóttin var sú ágæt ein á íslensku

Óhætt er að segja að gestir hafi verið agndofa yfir tónleikunum og flutningnum. Hvert lagið öðru fallegra og söngurinn, spilamennskan öll eins og best gerist. Kynnir sveitarinnar sagði svo gestum frá því, þegar hann kynnti inn lag um miðbik tónleikanna, að það væri siður hjá sveitinni að æfa lag á tungumáli þess lands sem hún heimsótti. Þau hefðu valið lagið Nóttin var sú ágæt ein. Þá tók hann fram að íslenska væri erfitt tungumál að læra en þau hefðu lagt sig fram. Skemmst er frá því að segja að tónleikagestir þökkuðu flutninginn, sem var óaðfinnanlegur, með standandi lófaklappi. Myndbandið af laginu er hér fyrir neðan.

Tónleikahús nauðsynlegt á Suðurland

Á tónleikunum var hvert sæti skipað í skólanum. Vettvangurinn var ágætur þó gjarna hefði mátt bjóða gestum eins og þessari sveit upp á hentugra rými fyrir þá glæsilegu tónleika sem þau fluttu, gestum sínum að kostnaðarlausu. Það er keppikefli að fá hingað á Suðurlandið gott tónleikahús og nauðsyn þess eins og svo oft áður undirstrikaðist á tónleikunum sem fram fóru í Fjallasal Sunnulækjarskóla.

 

 

Nýjar fréttir