1.7 C
Selfoss

Viðtal við Guðrúnu A. Tryggvadóttur um sýningu í Skálholti um helgina

Vinsælast

Þann 1. desember sl. kom út bókin LÍFSVERK – Þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar eftir Guðrúnu Arndísi Tryggvadóttur listakonu á Selfossi. Jafnframt opnaði Guðrún samnefnda sýningu í Hallgrímskirkju.

Útgáfuhátíð bókarinnar verður haldin í Skálholti laugardaginn 14. desember og hefst kl. 14:00.

Ámundi Jónsson nefndur „snikkari“ fæddist í Vatnsdal undir Þríhyrning og ólst upp á Steinum undir Eyjafjöllum. Hann var síðast búsettur í Syðra-Langholti en hann keypti einmitt jörðina þegar Skálholt setti jarðir sínar á sölu árið 1792. Ýmislegt annað tengir hann við Skálholt og hann byggði m.a. þrettán kirkjur á Suðurlandi.

Dagskráin í Skálholti samanstendur af erindi Guðrúnar um hvað það var sem vakti áhuga hennar á sögu Ámunda og hvernig verkið var unnið en Arndís S. Árnadóttir, sem er höfundar sagnfræðilegrar rannsóknar bókarinna segir frá því hvernig hún fór að því að rannsaka lífsferil alþýðumanns frá 18. öld. Að lokum opnar Guðrún sýningu á 30 verkum sínum úr bókinni en sýningin mun standa til loka janúar í skólahúsinu í Skálholti.

Sigurlaug Jónsdóttir myndlistarmaður tók viðtal við Guðrúnu á dögunum og fer það hér á eftir.

Hvar er hægt að sjá gripina sem enn eru til eftir Ámunda Jónsson?

Gripi eftir Ámunda Jónsson er að finna í sex kirkjum á Suðurlandi en hann gerði t.d. altaristöfluna í Keldnakirkju, Kálfholtskirkju og Gaulverjabæjarkirkju, skírnarfontinn í Odda, altari í Krosskirkju og predikunarstólinn í Mosfellskirkju. Fleiri gripir eru varðveittir í Þjóðminjasafninu en við Arndís fórum og skoðuðum alla gripi hans við rannsókn á lífsverki hans og það var sem ævintýri líkast að fá að sjá þessa gripi í návígi.

Hvaðan koma litirnir, hvernig fór hann að  því að fá liti?

Einmitt þessarar spurningar spurði ég mig og leitaði fanga. Ég var svo heppin að finna Sólveigu Jónsdóttur forvörð, sem nú er verkefnisstjóri Fornminjasafns Háskólans í Stavanger en hún hafði einmitt gert efnafræðilega rannsókn á þeim litarefnum sem Ámundi notaði í eina af altaristöflum sínum. Niðurstöður rannsóknarinnar er lokakafli bókarinnar og varpar hann nýju ljósi á hvaðan litarefnin komu til handverks á íslandi á 18. öld og þá hvaðan litapalletta Ámunda er upprunnin. Þessar niðurstöður eru hvalreki í mínum huga og ákaflega merkilegar.

Hvernig tókst honum að fjármagna og komast til Danmerkur, það er í sjálfu sér eins og að fara hálfa leið til tunglsins í dag?

Það vitum við ekki nákvæmlega en hann vann sér gott orð. Hugsanlega hefur honum hlotnast ákveðin virðing á árdögum Reykjavíkur en hann vann í Innréttingum Skúla Magnússonar sem ungur maður og það var hann sem bjargaði „22 sveinum og fleira fólki“ frá bráðum bana í bruna fabrikkuhúss Innréttinganna aðfaranótt 27. mars 1764.

Hvað er vitað um daglegt líf hans og fjölskylduhagi, hvernig tókst almúgamanni að framfleita fjölskyldunni því sjálfsagt hefur lítið verið borgað fyrir almenna listmuni á þessum tíma?

Hann var auðvitað bóndi meðfram handverkinu og við vitum um fjölskylduhagi, konu og börn og ýmislegt mjög áhugavert sem kom í ljós við rannsóknina. Svo áhugavert að við Arndís erum búnar að vera bergnumdar af því sem komið hefur í ljós nú í yfir tvö ár. Þetta hefur verið eins og að grafa eftir gulli og finna gull.

Hvað borgað var vitum við ekki nema í einstaka tilvikum en kirkjurnar þjónuðu því miilvæga og margþætta hlutverki á þessum tíma að vera aðal samkomustaður og í raun þungamiðja samfélagsins. Ég hef einmitt velt því mikið fyrir mér hvert gildi kirkna hefur verið og fært það inn í myndheim bókarinnar með ýmsum hætti.

Áhugavert væri að vita hvar hann fékk innblástur, geturðu sagt eitthvað frá því. Í dag er fólk í listaskólum í mörg ár og fær samt engan innblástur. Það er svo merkilegt að hann hafi haldið áfram og áfram og hafi unnið í marga miðla, bæði tré og silfur?

Ég er þeirrar skoðunar að slíkt sé mikið til meðfætt en atorkan og áhuginn er auðvitað eitthvað sem erfitt er að útskýra að öðru leiti en því að forvitnin og sköpunargleðin er einfaldlega óumflýjanleg þegar að fólk fær slíkt í vöggugjöf. Vera hans í Kaupmannahöfn hefur auðvitað líka haft mikil áhrif á hann og þess sést merki í mörgum af hans verkum. Ég kynnti mér það sérstaklega og rakti slóðir hans í Kaupmannahöfn og varð sjálf fyrir miklum áhrifum af því sem ég sá, 250 árum síðar.

Hafði hann einhverja bakhjarla, t.d. eitthað eins og Ragnar í Smára var listamönnum hér á síðustu öld?

Við vitum það ekki nákvæmlega en ýmsar vísbendingar benda til þess. Hann kom t.d. með Landsnefndinni fyrri til Íslands árið 1770, eftir Kaupmannahafnardvölina, sem sýnir og sannar að hann hefur áunnið sér traust og því verið treyst fyrir ábyrgðarverkefnum. Í bókinni er þessu gerð góð skil.

Mig leikur forvitni á að vita hvort kynni þín af Ámunda, sem ættföður þínum, hafa breytt hugmyndum þínum um þann tíma sem hann lifði?

Já algerlega. Ég fór í þessa vinnu til að reyna að skilja tímann og lífsverkið og það hefur skilað ákveðinni sýn á það hvernig raunverulegar aðstæður hafa verið á Íslandi á þessum tíma og aukið enn virðingu mína fyrir framtaki hans og þrautsegju íslendinga allra.

Hefur myndlistin þín breyst eitthvað við kynni af Ámunda og hefur þetta hjálpað þér til að tengja þig við hann sem myndlistarmann?

Það er kannski of fljótt að fullyrða nokkuð um það en vissulega hefur þessi ítarlega skoðun haft mikil áhrif á mig og ég finn fyrir ákveðinni tengingu, hvort sem hún er innbyggð í erfðamengi mitt eða lærð. Mikilvægast í þessu öllu saman finnst mér að geta bætt kafla við menningarsögu okkar og upplýst bæði mig, samtímamenn og ekki síst upprennandi kynslóðir um það úr hvað umhverfi við erum sprottin og hvað það er sem skiptir í raun máli í þessu lífi.

Nýjar fréttir