Árlegt hreinsunarátak hefst í Sveitarfélaginu Árborg mánudaginn 8. maí nk. og stendur yfir til 13. maí. Að venju verða gámar staðsettir austan við tjaldsvæðið á Eyrarbakka og við áhaldahúsið á Stokkseyri þann tíma sem átakið stendur og eru íbúar hvattir til að nýta sér þá og hreinsa til á lóðum sínum. Mikilvægt er að flokka efni í gámana eins og hægt er og fylgja þeim leiðbeiningum sem gefnar eru um flokkun. Dreifibréf verður sent í öll hús þar sem átakið verður kynnt nánar og fylgir dreifibréfinu frímiði sem nota má á gámasvæðinu til 31. mars 2018.
Tekið verður við úrgangi án endugjalds á gámasvæðinu við Víkurheiði þá daga sem átakið stendur yfir og verður það opið kl. 13–17 mánudaga til laugardaga.
Á gámasvæðinu er tekið við mörgum flokkum úrgangs, svo sem plasti, timbri, raftækjum og gleri, svo dæmi séu nefnd. Fatnað og aðra vefnaðarvöru geta íbúar sett í söfnunargám á gámasvæðinu eða í gáma við BYKO. Söfnunin fer fram í samstarfi við Rauða krossinn og má skila allri vefnaðarvöru í gámana, hvort sem hún er heil eða slitin.
Útboð á sorphirðu
Í lok síðustu viku var auglýst eftir tilboðum í sorphirðu í Sveitarfélaginu Árborg, en núgildandi samningur rennur út um mitt sumar. Með nýjum samningi verður sú breyting á að unnt verður að setja fleiri flokka sorps í Bláu tunnuna. Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi má einungis setja pappír og pappa í Bláu tunnuna, en með breytingunni verður unnt að bæta plasti og málmum við í hana. Tíðni losunar á Bláu tunnunni verður jafnframt aukin, en plast er fyrirferðarmikið í heimilissorpinu. Hið nýja fyrirkomulag verður kynnt rækilega þegar þar að kemur. Með aukinni flokkun minnkar það magn sorps sem urða þarf, en það tekur plast marga áratugi eða aldir að brotna niður í náttúrunni.
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.