„Freki kallinn“ er þekkt hugtak í tali fólks um pólitík. Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri er höfundur hugtaksins og skilgreindi hann hugtakið „Freki kallinn“ með ýmsum og fjölbreyttum hætti. Ekki er víst að allir þeir „mannkostir“ sem þar koma fram geti rúmast innan einnar manneskju, sögupersónu eða flokk manna og kvenna.
Á meðal þeirra „mannkosta“ sem Freki kallinn hefur, eru eftirfarandi: Freki kallinn er stjóri. Hann stjórnar. Hann kann að messa yfir öðrum og fátt finnst honum skemmtilegra en að halda lofræður um sjálfan sig nema ef vera skyldi að taka við viðurkenningu frá sjálfum sér. Í hans augum eru allir sem eru ekki sammála honum eintóm fífl og fávitar. Hann sýnir vandlætingu sína með svipbrigðum og orðum. Hann veit allt betur en aðrir og hefur alltaf rétt fyrir sér. Hann kann ekki að skammast sín, veit ekkert hvað það er, og er iðulega fyrstur til að segja öðrum að skammast sín.
Óþreytandi tuddast svo Freki kallinn áfram og er alveg sama þótt hann rekist utan í aðra eða meiði og skaði með framkomu sinni. Hann er ekkert mikið að pæla í öðrum, þeir skipta hann engu máli. Freki kallinn og samherjar hans eru vegurinn, sannleikurinn og lífið.
Hver er sannleikurinn?
Í síðustu Dagskrá ritar oddviti sjálfstæðismanna í Svf. Árborg grein sem bar yfirskriftina „Hafa skal það sem sannara reynist“, þar sem hann veitist meðal annars að mér persónulega. Í grein sinni tuddast oddvitinn úr einu efninu í annað með sannleikann sinn að vopni. Greinin er almennt ruglingsleg aflestrar og ber þess merki að sá er hana ritar sé ekki að fylgjast með því sem er að gerast hjá sveitarfélaginu um þessar mundir né hafi lágmarks þekkingu á verklegum framkvæmdum.
Í greininni er til dæmis fullyrt, að búið sé að fresta því að taka nýja skólabyggingu í gagnið til ársins 2023, þegar það rétta er að hún er nú í hönnunarferli og gert er ráð fyrir því að taka fyrsta hluta hennar í notkun á haustmánuðum 2021. Svipaða sögu má segja er greinarhöfundur nefnir byggingar leikskóla. Þar ruglar oddvitinn saman tveimur fyrirhuguðum leikskólabyggingum þvers og kruss.
Þegar svo rýnt er í fyrrnefnda grein í leit að sannleikskorni, má finna þar setningu þar sem rétt er farið með. Setningin sú hljóðar svo: “Fasteignafélagið fær vsk. af byggingarkostnaði endurgreiddan á framkvæmdatíma“. Undirritaður benti á það sama í grein sinni um „Fjölnota íþróttahús á Selfossvelli“, að virðisaukaskattur er endurgreiddur af framkvæmdinni, sem var kjarni máls þeirrar greinar. Hvað svo gerist er húsnæðið er tekið í notkun og leigt út, kemur framkvæmdinni sjálfri ekkert við.
Að lokum vil ég benda oddvita sjálfstæðismanna á, að það er lítilmannleg framkoma gagnvart því fólki sem er manni kært og nátengt, t.d. ömmu manns, að nota það sem fylliefni í fýlubombur Freka kallsins sem fær ekki að stjórna eftir eigin geðþótta.
Tómas Ellert Tómasson bæjarfulltrúi M-lista í Svf. Árborg og
formaður Eigna- og veitunefndar.