-0.7 C
Selfoss
Home Fréttir Tvær nýjar sýningar í Listasafni Árnesinga

Tvær nýjar sýningar í Listasafni Árnesinga

0
Tvær nýjar sýningar í Listasafni Árnesinga
Tinna Ottesen.

Tvær nýjar sýningar standa nú í Listasafni Árnesinga í Hveragerði, annars vegar grafísksýningin Heimkynni – Sigrid Valtingojer og hins vegar innsetningin Óþekkt – Tinna Ottesen.

Myndverkið Hörund jarðar eftir Sigrid Valtingojer.

Heimkynni er samstarfsverkefni með Listasafni ASÍ sem leggur til öll verkin utan eitt sem er í eigu Listasafns Árnesinga. Sýningarstjóri er Aðalheiður Valgeirsdóttir listfræðingur og myndlistarmaður. Sigrid Valtingojer fæddist 1935 en við andlát sitt 2013 hafði hún arfleitt Listasafn ASÍ að öllum verkum sínum, alls um 300, ásamt ýmsum gögnum þeim tengdum.

Auk þess að gefa innsýn í ólíkar aðferðir grafíklistar sem var aðalviðfangsefni Sigridar er hér kynntur heimsborgari því hún nam bæði erlendis og hér á landi, sýndi og starfaði víða og hlaut viðurkenningar fyrir list sína. Sem barn, við lok síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1945, kynntist Sigrid því að vera flóttamaður þegar fjölskylda hennar var svift eignum og rekin brott frá heimkynnum sínum í Súdeta-héruðum Tékkóslóvakíu. Þau flúðu til Thüringen héraðs Þýskalands og settust að lokum að í Jena sem þá var á sovésku yfirráðasvæði. Í lok ársins 1947 flúði fjölskyldan til Vestur-Þýskalands. Fullorðin valdi Sigrid Ísland sem heimkynni sín, en árið 1961 settust hún hér að og hér skildi hún eftir arfleifð sem á rætur í evrópskri menningu.

Tinna Ottesen.

Á sýningunni Óþekkt er gestum boðið að ganga inn í verkið, einn í einu, en verkið er gagnvirk innsetning og með tímanum getur efnið gefið sig og verkið því tekið breytingum. Í apríl er plast aðal efniviður innsetningarinnar en í maí mun latex taka við. Efni hegða sér á ólíkan hátt þar sem eiginleikar þeirra eru mismunandi og efni hafa líka skírskotanir sem tákn eða tilvísanir í uppruna sinn og áhrif þeirra á umhverfið. Innsetningin hverfist um hið háleita sublím sem nefnt hefur verið ægifegurð á íslensku. Á rómantíska tímabilinu vísaði ægifegurðin til smæð mannsins andspænis ógnarkrafti náttúrunnar en nú er farið að túlka það sem ógnarkraft tæknivæðingarinnar. Er maðurinn hluti af náttúrunni – eða teljum við okkur yfir hana hafin með því að ætla að stjórna öllu – og getum við það?

Tinna Ottesen er fædd árið 1980 og á ættir að rekja til Hveragerðis. Hún er menntuð í sjónrænum samskiptum, sviðshönnun og staðbundnum innsetningum í Danmörku og Belgíu. Allt frá árinu 2009 hefur hún unnið með fjölbreyttum hópum skapandi fólks (myndlistarmönnum, leikhúsmönnum, kvikmyndafólki, tónlistarfólki, hönnuðum) að ýmsum verkefnum hér á landi og erlendis, sem mörg hver hafa unnið til viðurkenninga.

Safnið er opið kl. 12–18 alla daga í sumar til loka september. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir. Uppbyggingasjóður Suðurlands stykir sýninguna Óþekkt.