-5.8 C
Selfoss

Mmm…listakvöld; málið, myndlistin og músíkin

Vinsælast

Árleg jóladagskrá Bókasafnsins í Hveragerði og Listasafns Árnesinga verður haldin í listasafninu mánudaginn 2. desember kl. 20. Þá munu rithöfundarnir Andri Snær Magnason, Bergur Ebbi Benediktsson, Harpa Rún Kristjánsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Steinunn G. Helgadóttir og Steinunn Sigurðardóttir lesa úr nýútkomnum bókum sínum. Unnur Birna Björnsdóttir fiðluleikari og söngkona sér um tónlistina og í safninu eru tvær myndlistarsýningar í gangi.
Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason. Í bókinni fjallar Andri um loftlagsmál, stærsta viðfangsefni sem jarðarbúar standa frammi fyrir.
Skjáskot eftir Berg Ebba Benediktsson er ferðalag um mannshugann. Stórra spurninga er spurt varðandi vandamál og þversagnir sem blasa við og svara leitað.
Edda eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur hlaut verðlaun Tómasar Guðmundssonar. Í þessari ljóðabók fléttast saman hugsanir um æsku og elli sem vega salt.
Vetrargulrætur eftir Rögnu Sigurðardóttur eru fimm smásögur sem gerast á ólíkum tímabilum en tengjast í gegnum fókus á listsköpun og stöðu kvenna.
Sterkasta kona í heimi er skáldsaga eftir Steinunni G. Helgadóttur. „Hættulegast af öllu er hamingjan. Það er lögmál að þessari svokölluðu hamingju fylgir alltaf mikill harmur.“
Dimmumót er ljóðabók eftir Steinunni Sigurðardóttur. Frá björtum sjónarhól barnsins sem heillast af hvítu eilífðarfjalli liggur leiðin til óvissu og umbreytinga samtímans.
Fiðluleikarinn, söngkonan og lagasmiðurinn Unnur Birna Björnsdóttir er fjölhæfur tónlistarmaður. Hún hefur víða komið fram og spilað með fjölda innlendra sem erlendra tónlistarmanna.
Sýningarnar sem nú standa í Listasafninu eru Heimurinn sem brot úr heild með verkum eftir Önnu Jóa og Gústav Geir Bollason og Tilvist og Thoreau með verkum eftir Hildi Hákonardóttur, Elínu Gunnlaugsdóttur og Evu Bjarnadóttur.
Það eru allir velkomnir á þessa aðventuhátíð sem virkjar skilningarvitin sjón, heyrn, lykt og bragð, því einnig er boðið upp á kaffi og piparkökur.

Nýjar fréttir