-7.2 C
Selfoss

Knattspyrnufélag Rangæinga sendir Dr. Football rauðaspjaldið

Vinsælast

Yfirlýsing frá KFR.

KFR sendir annað gult spjald á Dr. Football og þar með rautt!

Meistaraflokksráð KFR telur sig knúna til að leiðrétta enn og aftur rangfærslur Dr. Football en forsvarsmenn hlaðvarpsins halda áfram að fullyrða að KFR sé í viðræðum við Djemba-Djemba þrátt fyrir að formaður KFR hafi þvertekið fyrir það í síðustu viku í viðtalið við Fótbolti.net. Við skiljum aftur á móti áhuga leikmannsins að ganga til liðs við félagið, eins og Dr. Football vill meina.

Rétt skal vera rétt. Meistaraflokksráð KFR vann vinnu Dr. Football og komst að því að ungur stuðningsmaður KFR sendi í gríni skilaboð á Djemba-Djemba í gegnum Instagram og bauð honum gull og græna skóga ásamt vinnu í Sláturfélagi Suðurlands á Hvolsvelli. Þessi annars ágæti stuðningsmaður hefur engin tengsl né formlega stöðu hjá KFR og getur því ekki komið fram fyrir félagið eða verið talsmaður þess á nokkurn hátt. Einnig hefur hann ekki umboð til að ráða í störf hjá Sláturfélagi Suðurlands.

KFR gefur því eðlilega ekki mikið fyrir heimildaöflun og fagleg vinnubrögð hjá Dr. Football. Ef stjórnendur Dr. Football hefðu nennt að hringja eins og eitt símtal út fyrir höfuðborgarsvæðið hefðu þeir með auðveldum hætti komist að hinu sanna í málinu.

Við vonum að Dr. Football fái ekki langt leikbann og komi enn sterkari til leiks hjá landsbyggðinni að því loknu.

Nýjar fréttir