Tækifæri fyrir nemendur, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til samstarfs
Atvinnuskapandi nemendaverkefni á Suðurlandi er eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands. Verkefninu er ætlað að hvetja til samstarfs milli nemenda og fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga. Það eru Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) sem stýra verkefninu. Nemendur vinna raunhæf verkefni, til dæmis lokaverkefni, með það að markmiði að verkefnið leiði til atvinnu- og eða nýsköpunar á Suðurlandi. Mikilvægi samstarfs milli nemenda og atvinnulífs hefur verið mikið í umræðunni undanfarið og er verkefnið liður í að hvetja til slíks samstarfs. Nýverið voru undirritaðir tveir samningar á milli SASS og nemenda um verkefni sem hlutu styrk. Verkefnin sem hlutu styrk bera heitin Hackathon Sudurlands og Störf án staðsetningar. Magdalena Falter býr í Rangárþingi eystra og fékk hún styrk fyrir PhD lokaverkefnið Hackathon Sudurlands, leiðbeinandi hennar er Gunnar Þór Jóhannesson prófessor við Háskóla Íslands. Ellý Tómasdóttir íbúi í Árborg fékk styrk fyrir MSc lokaverkefnið Störf án staðsetningar sem hún er að vinna að við Háskóla Íslands, hennar leiðbeinandi er Gylfi Dalmann dósent við Háskóla Íslands.
Á heimasíðu SASS geta fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög skráð inn verkefnatillögur. Nemendur geta sótt um að vinna að þeim verkefnum eða sótt styrk út á eigin verkefnatillögur. Opið er fyrir umsóknir allt árið og matsnefnd á vegum SASS fer yfir umsóknir um verkefni jafnóðum og þær berast. Sunnlensk fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög eru hvött til þess að setja inn verkefnahugmyndir á vef SASS. Allar frekari upplýsingar má finna á heimasíðu SASS undir nemendaverkefni eða hafa samband við einhvern af ráðgjöfum SASS sem stýra verkefninu.
Setja í box með grein
Verkefnatillögur eru metnar út frá eftirfarandi þáttum:
- Hversu mikla sunnlenska tengingu/áhrif hefur verkefni
- Hvernig verður samvinnu milli nemanda og fyrirtækis háttað
- Hversu líklegt er að verkefnið leiði af sér atvinnu- og/eða nýsköpun
Guðlaug Ósk Svansdóttir
Verkefnastjóri atvinnuskapandi nemendaverkefna