-4.3 C
Selfoss

Nýtt geðheilbrigðisteymi tekur til starfa á HSU

Vinsælast

Í byrjun árs tilkynnti Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra að alls yrði varið 630 milljónum af fjárlögum til eflingu geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu. Af þeirri upphæð fékk HSu alls 58 milljónir sem nýttar verða til að efla geðheilbrigðisþjónustu á Suðurlandinu öllu. Í sumarlok var ráðin inn Svanhildur Ólafsdóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur í nýtt starf teymisstjóra geðheilsuteymis HSu. Hún er nú í óða önn að skipuleggja nýja starfsemi og vísir að því sem koma skal að rísa upp yfir yfirborðið. Dagskráin leit við hjá Svanhildi sem gaf sér tíma til að segja frá nýrri og aukinni þjónustu í geðheilbrigðismálum hjá HSU.

Markmiðið að auka þjónstuna sem fyrir er

Markmiðið með nýju geðheilsuteymi er að sögn Svanhildar að veita þverfaglega þjónustu á sviði geðheilbrigðismála í landshlutanum. „Ríkið er að setja inn fjárveitingu til þess að bæta í innan málaflokksins. Þjónustan er hugsuð til viðbótar við þau kerfi sem nú eru. Það má segja að skort hafi á málastjórn innan þessa kerfis og einstaklingar með geðræn vandamál þurft að leita víða fanga en enginn miðpunktur sem heldur utan um málin þeirra. Það verður hlutverk teymisins að veita þverfaglega þjónustu þar sem kerfin sem einstaklingurinn fær þjónustu frá, tali saman og veiti utanumhald og samfellu í meðferð einstaklingsins,“ segir Svanhildur.

Erum ekki bara á Selfossi

Aðspurð hvort teymið muni starfa á Selfossi og fólk þurfi að sækja sína þjónustu þangað, segir Svanhildur: „Alls ekki. Það verður að koma skýrt fram að við ætlum okkur að vinna á öllum starfstöðvum HSU. Það er með ýmsum hætti sem verður útfært. Í einhverjum tilfellum munu starfandi heilbrigðisstarfsmenn á hverri starfsstöð aðstoða fólk með bakland í teymið. Í einhverjum tilfellum mætir fulltrúi teymisins í viðtal í heimabyggð,  og svo munum við nota fjarfundatæknina líka,“ segir Svanhildur og augljóst að henni er það hjartans mál að koma því áleiðis að þjónustan verði fyrir allt Suðurland.

Vel mannað teymi og mikil þekking

Aðspurð um hvernig teymið sé mannað segir Svanhildur: „Ég er ákaflega ánægð með samstarfsfólkið en þau eru úr öllum áttum. Það hjálpar okkur mikið í þeirri vinnu sem við erum að fara takast á hendur. Í teyminu er hjúkrunarfræðingur, félagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur, sálfræðingar, sjúkraþjálfari og geðlæknir sem við erum ótrúlega heppin að hafa. Þessi samsetning er okkar mesti styrkur og við getum séð hlutina í mismunandi ljósi sem mun koma okkar skjólstæðingum ákaflega vel.“

Þjónustan einstaklingsmiðuð

Þjónustan verður fyrir einstaklinga sem eru 18 ára og eldri og greindir hafa verið með geðsjúkdóma eða geðraskanir sem þurfa á þéttri þverfaglegri aðstoð að halda, þar sem geðröskun er aðalvandi. „Þjónustan er einstaklingsmiðuð þar sem við horfum á einstaklinginn og hvað það er sem við getum gert til þess að valdefla hann. Markmiðið er að einstaklingurinn fái aukin lífsgæði þrátt fyrir sinn sjúkdóm,“ segir Svanhildur.

 

 

Nýjar fréttir