-5.8 C
Selfoss

Fjölnota íþróttahús á Selfossvelli

Vinsælast

Sögulegum áfanga var náð á fundi bæjarstjórnar þann 16. október síðastliðinn um að heimila byggingu fyrsta áfanga nýrrar íþróttamiðstöðvar við Engjaveg á Selfossi. Fullbyggð mun íþróttamiðstöðin verða yfir 20.000 fermetrar að stærð og gert er ráð fyrir því að framkvæmdum við hana verði að fullu lokið árið 2030.

Fyrsti áfangi íþróttamiðstöðvarinnar sem samþykkt var að hefja framkvæmdir við er fjölnota íþróttahús sem er um 6.500 fermetrar að stærð og mun rúma hálfan knattspyrnuvöll, auk aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir, göngubraut sem mun nýtast eldri borgurum vel og loks munum við eignast hús sem nýst getur sem sýningar- og tónleikahús. Húsið mun rísa við suðurenda núverandi gervigrasvallar. Markmiðið er að  fyrsti áfangi þessa glæsilega fjölnota íþróttahúss verði tilbúinn til notkunar 1. ágúst 2021.

Hvenær er rétti tíminn?

Það olli okkur miklum vonbrigðum við afgreiðslu málsins að fulltrúar D-lista greiddu allir atkvæði gegn framkvæmdinni. Opinbera skýringin á afstöðu þeirra er sú að sveitarfélagið hafi ekki fjárhagslega burði til þess að ráðast í framkvæmd af þessari stærðargráðu. Fjárfestingin telst vera um það bil 16% af skatttekjum sveitarfélagsins og er því undir 20% markinu í sveitarstjórnarlögum sem segir til um hvort sérstakrar úttektar sé þörf á áhrifum einstakra fjárfestinga á fjárhag sveitarfélaga. Það að fjárfestingin er undir 20% markinu þýðir að ekki er þörf á sérstakri úttekt á áhrifum fjárfestingarinnar á fjárhag sveitarfélagsins. Engu að síður er þetta stór framkvæmd og miður að ekki hafi náðst samstaða innan bæjarstjórnar um mikilvægi þess að hrinda þessu verkefni af stað.

Það má eflaust bíða endalaust eftir rétta tímanum til þess að fara í svona framkvæmdir en okkar skoðun er sú að ekki verður beðið lengur. Það er einnig vert í þessu samhengi að minna á skóflustungu sem tekin var örfáum dögum fyrir kosningar 2014 fyrir viðbyggingu við Sundlaug Selfoss og einnig kaup á félagsmiðstöð og dagdvöl fyrir eldri borgara á síðasta kjörtímabili þegar D-listinn var við völd. Báðar þessar fjárfestingar voru samþykktar samhljóða í bæjarstjórn enda bráðnauðsynlegar og gerði minnihlutinn sem þá var, sér grein fyrir nauðsyn þeirra framkvæmda. Þessar tvær fjárfestingar eru samanlagt af svipaðri stærðargráðu og sú sem nú á að ráðast í og er ekki síður mikilvæg fyrir samfélagið allt. Fjárhagsleg staða sveitarfélagsins er á engan hátt verri nú en þegar þær framkvæmdir voru ákveðnar á sínum tíma og því er sú afstaða fulltrúa D-lista að vera á móti uppbyggingu bættrar aðstöðu fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf í sveitarfélaginu til framtíðar, óskiljanleg með öllu.

Gildi íþróttastarfs

Svf. Árborg er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi samfélag og til að við getum staðið við þau markmið sem þar eru sett fram þarf meðal annars að vera til staðar góð aðstaða til íþrótta- og æskulýðsstarfs sem aðgengileg sé öllum. Stærstur hluti þátttakenda í skipulögðu íþróttastarfi eru börn og unglingar og efast fáir um að gildi íþróttaiðkunar sem birtast í forvörnum gegn ýmsum samfélagsvandamálum sé ómetanlegur þáttur í uppbyggingu vaxandi samfélags. Heildar lýðheilsu- og efnahagsleg áhrif íþrótta fyrir samfélög eru einnig mikil. Í kringum íþróttastarfið hafa stórir sem smáir viðburðir löngum notið mikilla vinsælda meðal almennings. Viðburðir sem fram hafa farið hér í Svf. Árborg á undanförnum árum hafa sannað samfélagslegt gildi sitt í öllum þeim félagslegu tengslum sem myndast hafa í kringum íþróttirnar.

Það hefur verið okkur mikil hvatning í þessu máli sá frábæri árangur sem íþróttafólkið okkar hefur náð á undanförnum árum sem vakið hefur gríðarlega athygli á landsvísu. Það hefur einnig verið okkur hvatning sá einhugur og sú góða samvinna sem ríkt hefur í samstarfinu um hönnun og framgang verksins með stjórn Umf. Selfoss sem styður heilshugar við verkefnið.

Það er fagnaðarefni að framkvæmdir við fyrsta áfanga íþróttamiðstöðvar við Engjaveg séu að hefjast enda uppfyllir hún óskir og þarfir íþróttahreyfingarinnar til langs tíma, ekki eingöngu á Selfossi heldur í Svf. Árborg og á Suðurlandi öllu.

Sigurjón Vídalín Guðmundsson Á-lista

Helgi Sigurður Haraldsson B-lista

Tómas Ellert Tómasson M-lista

Arna Ír Gunnarsdóttir S-lista

Eggert Valur Guðmundsson S-lista

 

Nýjar fréttir