-7.8 C
Selfoss

Fjölskyldusmiðja – Skordýrahótel og pödduhíbýli

Vinsælast

Yfir vetrarmánuðina er fjölskyldum boðið að taka þátt í listasmiðjum í Listasafn Árnesinga síðasta sunnudag hvers mánaðar. Næsta smiðja fer því fram sunnudaginn 27. október kl. 14-16. Viðfangsefni hennar er skordýrahótel og pödduhíbýli og tengist sýningunni Heimurinn sem brot af heild, þar sem verk eftir listamennina Önnu Jóa og Gústav Geir Bollason eru til sýnis. Eitt verka Gústavs Geirs heitir einmitt Skordýrahótel. Það hefur hrifið unga gesti og vildi einn þeirra  nefna það skorýrakastala vegna mikilfengleika.

Kristín Þóra Guðbjartsdóttir fræðslufulltrúi safnsins hefur yfirumsjón með listasmiðjunum og í þetta sinn hefur hún fengið Þóreyju Hannesdóttur listgreinakennara til samstarfs.  Smiðjan er unnin í samvinnu Listasafns Árnesinga, garðyrkjudeildar Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi  og Grasagarðs Reykjavíkur. „Skordýrahótel eða pödduhíbýli gegna því veigamikla hlutverki að veita skordýrum og áttfættlingum öruggt skjól, enda þurfum við öll þak yfir höfuðið, ekki síst þegar fer að kólna í veðri. Mikilvægt er að vernda skordýrin sem þjóna náttúrunni, sinna frjóvgun og losa okkur við skaðvalda. Með því að bjóða upp á fimm stjörnu hótelgistingu erum við að þjóna þeim til baka.“ segir Þórey, sem hélt samskonar smiðju í Grasagarðinum í Reykjavík fyrir stuttu. Hún vakti mikla lukku, yfir hundrað manns mættu, foreldrar og börn, afar og ömmur og mörg flott og spennandi hús urðu til.

Við hvetjum fjölskyldur til að heimsækja sýningar safnisins og taka þátt í sköpunninni sem boðið er upp á með listasmiðjunni. Aðgangur að safninu og smiðjunni er ókeypis og allt efni á staðnum.

 

Nýjar fréttir