-4.1 C
Selfoss

Flugklúbbur Selfoss 45 ára á árinu

Vinsælast

Flugklúbbur Selfoss fagnar 45 ára afmæli sínu á árinu en hann var stofnaður 16. maí 1974. Haldið var upp á afmælið með pompi og prakt föstudaginn 11. október sl. með svokölluðu sumarslútti. Alls mættu yfir 80 manns og mikið var um dýrðir.

Hendur látnar standa fram úr ermum

Saga klúbbsins og flugvallarins er stórmerkileg fyrir margra hluta sakir. Upphafsmaður klúbbsins er Einar Elíasson. Einar hóf flugnám í Reykjavík 1973. Að hausti það ár var Einar farinn að fljúga talsvert um svæðið með það í huga að finna heppilegan lendingarstað. Hann fannst að lokum þar sem völlurinn er í dag. Nokkrum árum áður hafið Jón Guðbrandsson, dýralæknir á Selfossi verið í sömu hugleiðingum. Segja má í mjög styttu máli að þegar þeir Einar og Jón lögðu saman krafta sína hafi hjólin farið að snúast, og það hratt. Vinna við flugvöllinn hófst í júní 1974 og þeir Einar og Jón sáu um staðsetningu og stefnur og mældu fyrir og létu brjóstvitið ráða. Ekkert fjármagn var tryggt til verksins en hendur voru látnar standa fram úr ermum. Formleg vígsla á vellinum fór svo fram 31. ágúst 1974. Mun ítarlegri sögugreiningu má finna á heimasíðu klúbbsins flugklubbur.is, en hér hefur verið stiklað á stóru.

Starfið aldrei verði öflugra

Starf flugklúbbsins er afar gróskumikið og margir nýta sér völlinn. Félagar eru 155 og þeim hefur fjölgað um helming síðustu tíu árin. „Við erum með fasta pósta í starfinu okkar. Öll þriðjudagskvöl yfir sumarið er opið hús í flugstöðinni. Kaffikvöldin hafa verið vel sótt af okkar meðlimum en svo fljúga margir hingað til okkar í kaffisopa. Þá er lendingarkeppni hér á hverju ári sem nefnist Pétursbikarinn og sú keppni er afar vinsæl,“ segir Þórir Tryggvason, formaður klúbbsins. Aðspurður um fjölda flugvéla segir Þórir: „Þær eru að jafnaði 13-15 en allnokkrar eru hér í nágrenninu t.d. í Forsæti í flóa og víðar. Völlurinn er svo nýttur af ýmsum öðrum aðilum eins og flugskólum en aðstaðan þykir afar góð. Þá er dálítið um sjúkraflug héðan en bæði er staðsetning heppileg í mörgum tilfellum og öll umgjörðin rúmgóð og traust,“ segir Þórir.

Öryggismál á oddinn

Talið berst að flugöryggi og flugöryggismálum og Þórir tekur undir að þau atriði sem lúta að flugöryggismálum séu hvað mikilvægust. „Klúbburinn leggur mikla áherslu á öryggismál og heldur reglulega öryggisfundi og skipuleggur æfingadag. Árið í ár hefur engu að síður tekið grimman toll í slysum og óhöppum. Við höfum hér sloppið sem betur fer ákaflega vel og það verður okkur áfram kappsmál að halda öryggismálum hátt á lofti.

Gott samstarf við bæjarbúa

Þórir kemur inn á það að gott samstarf sé við bæjarbúa og áhersla sé á það. „Við leggjum mikið upp úr því að eiga í góðu og nánu samstarfi við bæjarbúa sem hafa ávallt sýnt okkur mikla velvild. Samhliða því höfum við unnið hörðum höndum, nú sem endranær, að völlurinn sé í sem bestu ásigkomulagi. Við græddum til að mynda upp brautirnar með grasi og nú falla þær mun betur að umhverfinu.

Meðlimir klúbbsins fagna á sumarslútti klúbbsins.

Nýjar fréttir