-5.8 C
Selfoss

Kjúklingaréttur og marengsterta

Vinsælast

Doritos kjúklingaréttur

 

4 kjúklingabringur

1 dós mexikósk ostasósa

1 dós  salsasósa

Rifinn ostur ca. 1 poki

1 poki Doritos-snakk að eigin val.

 

Kjúklingurinn er skorinn i bita, kryddaður eftir smekk og steiktur á pönnu, því næst er Doritos-snakkið mulið aðeins í eldfast mót og dreift vel yfir botninn, þá er salsasósunni dreift vel yfir snakkið og ostasósunni yfir það. Þá er kjúklingurinn settur yfir sósurnar, ofan á er svo settur rifinn ostur eftir smekk en mér finnst gott að setja dálítið vel af osti yfir.

 

Sett svo inn í ofn á 200°C  í 15-20 mín.

 

Meðlæti getur verið t.d. hrísgrjón og ferskt salat úr íslensku grænmeti en einnig er þetta rosalega gott bara eitt og sér.

 

 

Marensterta með kókosbollurjóma og jarðarberjum.

 

Marengsbotnar:

  • 6 eggjahvítur
  • 300 gr. sykur
  • 1/2 tsk. vínsteinslyftiduft
  • 50-100 gr. rjómasúkkulaði frá Nóa Síríusi eftir smekk hvers og eins.

 

Aðferð: Hitið ofn í 120 gráður með blæstri. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær verða froðukenndar. Bætið sykrinum smám saman út í. Þeytið í 1-2 mínútur. Bætið þá vínsteinslyftiduftinu út í. Súkkulaðið er síðan smátt skorið og blandað varlega saman við án þess að hvíturnar falli. Dreifið jafnt úr marengsinum á tvær smjörpappírsklæddar bökunarplötur þannig að hann myndi tvo um það bil jafn stóra hringi. Bakið í 90 mínútur. Slökkvið þá á ofninum, opnið hann og leyfið að kólna í um 1 klst.

 

Fylling:

  • 5 dl rjómi
  • 4 kókosbollur
  • Jarðarber

 

Aðferð: Þeytið rjómann, brjótið kókosbollurnar saman við. Dreifið yfir annan marengsbotninn. Skerið jarðarber í sneiðar og leggið ofan á rjómann, setjið svo hinn marengsbotninn ofan á.

 

Ofan á:

  • 1 poki Dumle karamellur (120 gr.)
  • 1 dl rjómi
  • Jarðarber

 

Aðferð: Bræðið saman í potti við vægan hita. Kælið og hellið yfir tertuna. Skreytið með jarðarberjum.

 

 

Ég þakka áskorunina og skora næst á elskulegu tengdamóður mína Hrafnhildi Valgarðsdóttur að vera næsta matgæðing vikunnar.

Nýjar fréttir