1.7 C
Selfoss

Þjónustuver ráðhússins færist í bókasafnið

Vinsælast

Framkvæmdir hafa staðið yfir sl. vikur í Ráðhúsi Árborgar og bókasafninu á Selfossi og fyrirséð er að þeim muni ekki ljúka fyrr en í byrjun október. Af þeim sökum verður bókasafn Árborgar á Selfossi áfram lokað. Iðnaðarmenn og starfsmenn vinna þó hörðum höndum að því að gera bókasafnið klárt til opnunar sem verður vonandi á allra næstu vikum. Dagskráin hafði samband við Gísla Halldór Halldórsson, bæjarstjóra varðandi breytingar á safninu. „Markmið með breytingum á bókasafninu er tvíþætt. Í fyrsta lagi er hlutverk bókasafnsins útvíkkað og mikilvægi þess aukið sem hringiðu samfélagsins í Árborg, með því að samþætta þar bókasafnið við móttöku sveitarfélagsins og þjónustuborð. Hinsvegar er verið að leggja á nýtt gólfefni, en langt er síðan sú ákvörðun var tekin og mikilvægt var að nýta tækifærið til að gera nauðsynlegar breytingar.“

Áhersla á að bæta þjónustu við íbúa

Sveitarfélagið telur bókasafnið hafa mikilvægu hlutverki að gegna sem staður þar sem íbúar geta fundið sig velkomna, hitt hvern annan og sinnt hugans málefnum og svo verður áfram. „Til að auka enn frekar á þetta mikilvægi og tengja þjónustu sveitarfélagsins betur við íbúana og þarfir þeirra hefur verið ákveðið að flytja þjónustumóttöku ráðhússins niður af 2. hæð og finna henni stað í austurhluta 1. hæðarinnar. Breytingunum er hagað þannig að sem allra minnst þrengi að því rými sem safnið hefur haft. Mikið samráð hefur verið haft við starfsfólk um þessar breytingar allt frá því um síðustu áramót. Ólík sjónarmið hafa verið rædd af fjölda starfsfólks og niðurstöðum náð á grundvelli þess, í samvinnu við færustu arkitekta. Alltaf er það þó þannig að breytingar valda raski og ónæði bæði fyrir starfsfólk og íbúa – og sitt sýnist hverjum þar til reynsla er komin á,“ segir Gísli.

Áframhaldandi þróun og reynt að mæta þörfum íbúa

„Þegar þjónustumóttakan hefur tekið til starfa á 1. hæð mun taka við áframhaldandi þróun þar sem lögð verður áhersla á að mæta þörfum íbúa í ljósi reynslunnar og á þeim breyttu forsendum sem nútíminn hefur lagt að fótum okkur. Einnig stefnir Héraðsskjalasafnið að því að flytja úr húsnæðinu Austurvegi 2 og þá mun skapast meira rými fyrir bókasafnið og þjónustu sveitarfélagsins á 1. hæðinni,“ segir Gísli að lokum.

 

 

Nýjar fréttir