-5.5 C
Selfoss

Flug sem almenningssamgöngur

Vinsælast

Verið er að vinna flugstefnu fyrir Ísland af krafti og liggja fyrstu drög hennar fyrir sem grænbók. Stefnan er í eðli sínu bæði pólitísk og fagleg. Drögin taka fyrst og fremst á faglega þættinum. Nú liggur fyrir að fá umsagnir sem fjalla um félagslega og pólitíska þáttinn, ásamt umhverfismálum flugsins. Þar koma við sögu sveitarfélög, þingflokkar og ríkisstjórn, auk sérfræðinga. Stjórnarflokkarnir hljóta setja sinn svip á stefnuna í samræmi við samstarfssamning ríkisstjórnarinnar. Tryggja verður að landshlutar hafi áhrif á stefnuna í innan- og utanlandsflugmálum. Innanlandsflug á að vera, samanber grænbókinina, hluti almenningssamgangna í landi með byggðamynstri eins og hér er. Farmiðaverð, fartíðni, fjöldi flugvalla í heilsársrekstri og lega fullkomins flugvallar við höfuðborgina eru önnur mikilvæg atriði. Hlutverk höfuðborgar skilyrðir hraðsamgöngur frá helstu bæjum til hennar. Allir varavellir landsins eru alþjóðaflugvellir að vissu marki og eiga að vera nothæfar gáttir að hóflegum straumi fólks inn og út úr landinu, með bættri tækni.

Skoska leiðin styður vð innanlandsflug

Snemma í desember 2018 skilaði starfshópur skýrslu: ,,Uppbygging flugvallakerfisins og efling innanlandsflugsins sem almenningssamgangna“. Hún hefur áhrif á flugstefnuna. Í henni er lagt til að skoska leiðin verði tekin upp í innanlandsflugi. Sú tillaga var samþykkt í þinginu með 48 atkvæðum en 10 þingmenn sátu hjá. Skoska leiðin skilgreinir væntanlega svæði þar sem íbúar er ferðast í einkaerindum fá 50% niðurgreiðslu á flugfargjöldum – að hámarki 8 leggir á ári á einstakling  – á meðan reynsla safnast upp. Gert er ráð fyrir í samgönguáætlun 2019 -2033 að fyrirkomulagið taki gildi um áramótin með nýjum fjárlögum.

Fjármagn til flugvalla

Mikilvægt er að minna á að stefna ríkisstjórnarinnar hefur líka komið fram, í orðum Sigurðar Inga Jóhannssonar ráðherra og samgönguáætluninni, að hluta af hagnaði ISAVIA skal nota í að bæta varaflugvelli millilandaflugsins. Það hefur aftur áhrif á aðra flugvelli með því að annað fjármagn fæst þá til að bæta ástand og rekstur þeirra. Þetta á líka að vera hluti flugstefnu Íslands.

Umhverfislausnir

Þróun flugvéla og leiðsagnartækja er hröð og margt vinnst þar í þágu umhverfis- og  loftslagsmála með hverju ári. Það er engu að síður einföldun að klifa á rafvæðingu flugs eins og hún sé meginleið til að minnka losun frá loftförum. Um alllanga hríð munu rafflugvélar verða algengar sem 2 til 8 eða 10 manna loftför. Stærri farþegavélar nýta margar „grænt eldsneyti“ svo sem vetni, alkólhól og lífdísil. Öflugar eða langfleygar vélar á norrænum veðurslóðum verða þeirrar gerðar um hríð. Flugstefnan hlýtur að taka mið af þeim raunveruleika. Ítreka verður  að hún vinnst í fáeinum stórum skrefum með góðu samráði fagaðila, hagaðila, stjórnvalda, þingflokka og almennings. Tekur mið af raunveruleikanum.

Ari Trausti Guðmundsson

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.

 

Nýjar fréttir