-6.5 C
Selfoss

Flóamannabók á  lokametrunum

Vinsælast

Guðni Ágústsson

Eins og mörgum mun kunnugt er verið að skrifa sögu hreppanna sem nú mynda Flóahrepp: Hraungerðis- Villingaholts og Gaulverjabæjarhreppa. Þar er að verki Jón M. Ívarsson sagnfræðingur frá Vorsabæjarhóli. Bækurnar verða tvær um hvern hinna gömlu hreppa og bindin tvö um Hraungerðishrepp eru að verða tilbúin undir prentun og koma væntanlega út fljótlega eftir næstu áramót. Hvort bindi um sig verður um 500 bls. með 800 myndum sneisafullt af fróðleik.

Sunnlenskar byggðir komu út fyrir um 40 árum og hafa verið biblía fólksins í fróðleik um fólk og sögu Flóans. Hvar sem maður kemur eru þær orðnar slitnar og farnar úr böndunum. Fjörutíu ár er langur tími og kynslóðaskipti hafa orðið nánast á hverjum bæ ásamt nýbýlum og sumarhúsum og  þar hefur bæst við merka sögu okkar Flóamanna á svo mörgum sviðum. Texti Flóaamannabókar verður tvískiptur: Fyrst er upptalning fjölskyldunnar svipað og í ættarbókum og síðan saga hverrar fjölskyldu bújörð af bújörð ásamt myndum af  fólkinu. Ennfremur verða bækurnar gríðarlegur fróðleikur um fjölskyldurnar mann fram af manni sem bjuggu í Flóanum því er mikill áhugi þeirra sem ættir eiga að rekja eða tengjast sveitunum og eru burtfluttir að fræðast um forfeður sína.

Þetta hefur Jón unnið í samstarfi við ábúendur á hverri jörð fyrir sig og afkomendur þeirra og fengið myndir frá þeim af fjölskyldunni og myndir af hverjum bæ. Ábúendur og afkomendur hafa lesið yfir  texta um sig og sína jörð. Ennfremur verður nokkuð skýr jarðalýsing með örnefnaskrá af hverri jörð og atvinnu og félagsmálasaga hreppanna rakin í bókunum.

Þessar bækur eiga heima á hverjum bæ og verða hin nýja bók bókanna. Ritnefndin mun gera sitt til að auðvelda fólki að eignast bækurnar og verðinu verður stillt í hóf.

Við sem sitjum í ritnefndinni eigum því erindi við ykkur öll sem í Flóahreppi búið og þar eigið ykkar spor frá æskuárum, á næstu mánuðum til að tryggja ykkur Flóamannabók á eldhúsborðið ykkar. Ritnefndina skipa auk Jóns M. Ívarssonar, Brynjólfur Ámundason, Guðni Ágústsson, Veronika Narfadóttir, Guðrún Tryggvadóttir, Bjarni Pálsson, Sigmundur Stefánsson og Þórdís Kristjánsdóttir. Guðmundur Stefánsson og Svavar Sigmundsson frá Hraungerði hafa verið Jóni til aðstoðar og lesið textann yfir. Við vonum að allir þeir sem unna sögunni og fróðleik vilji eignast þessar bækur og fólki gefst kostur að fá nafn sitt skráð í bókina í heiðursáskrift.

Sigmundur Stefánsson sími 898-6476 sigmundurstef@gmail.com og Guðrún Tryggvadóttir sími 894-4448 grenigrund@islandia.is munu taka á móti pöntunum í bókina.

Árlega hefur nefndin staðið fyrir Kótelettukvöldum í Þingborg og verður hátíðin samkvæmt venju á vetrardaginn fyrsta laugardaginn 26. okt næstkomandi.

Guðni Ágústsson.

 

 

Nýjar fréttir