Soroptimistaklúbbur Suðurlands stendur nú í haust fyrir konukvöldi, en það hefur verið árlegur viðburður í félagslífi sunnlenskra kvenna síðan 2014. Í þetta sinn verður konukvöldið föstudaginn 20. september nk. í Þingborg.
Heiðursgestir og skemmtikraftar kvöldsins verða Bergþór Pálsson og Albert Eiríksson. Þá þarf vart að kynna, þvílíkar stórstjörnur sem þeir eru. Auk þeirra munu þær Bassadætur Unnur Birna og Dagný Halla skemmta með söng.
Fastir liðir eins og venjulega verða fordrykkur, léttar veitingar, hið gnægtarlega happdrætti og sýning á hausttískunni frá versluninni Lindinni á Selfossi. Þá verða konur úr Soroptimistaklúbbnum með kynningu á skinnavörum og eigin handverki.
Konukvöldin, eða vinkonukvöldin eins og þau hafa oft verið kölluð, hafa verið fjölsótt og víst eru margar sunnlenskar konur sem mæta reglulega, enda hafa á milli 120 og 150 konur notið samvista hver við aðra á konukvöldum gegnum tíðina. En þrátt fyrir fjör og gaman er alvarlegur undirtónn, því allur ágóði af kvöldinu rennur til jólagjafaverkefnis Soroptimista. Það er unnið í samstarfi við félagsþjónustu sveitarfélaga á Suðurlandi og er ætlað að létta efnaminni konum og fjölskyldum þeirra jólahaldið.
Aðgöngumiða má nálgast í versluninni VAX við Austurveg 21, Selfossi, hjá Soroptimistakonum og einnig verða þeir seldir við innganginn. Verð miða er 4.500 og rennur allur ágóði eins og áður segir til jólagjafgaverkefnisins. Dyr Þingborgar verða opnaðar kl. 19.30 og hefst dagskrá kl. 20.
Allar konur af öllum gerðum eru velkomnar, vinkonur, dætur, mágkonur, systur, tengdadætur, mömmur, ömmur og töntur. Sunnlenskir Soroptimistar hlakka til að sjá ykkur!
Fréttatilkynning frá Soroptimistaklúbbi Suðurlands