-4.8 C
Selfoss

Ingimar Íslandsmeistari í kvartmílu

Vinsælast

Ingimar Baldvinsson frá Selfossi varð Íslandsmeistari í kvartmílu í „street-flokki“ 17. ágúst síðastliðinn. Keppnin fór fram á kvartmílubrautinni í Kapelluhrauni í Hafnarfirði. Ingimar varð síðast Íslandsmeistari í þessum flokki 2017.

„Það sem er meira gaman við árið í ár er að ég náði að sigra með fullt hús stiga, sigraði allar þrjár keppnirnar. Allar keppnirnar eru á kvartmílubrautinni í Kapelluhrauni í Hafnarfirði. Þar er gríðarlega flott svæði sem þessi litli klúbbur er búinn að byggja upp. Þar er komin hringakstursbraut, sambyggð með ökukennurum, sandspyrnubraut og svo er náttúrulega kvartmílubraut. Einnig er verið að byggja torfærusvæði. Það er verið að keyra allan lóðaúrgang þarna út í hraun,“ segir Ingimar.

Ingimar keppir í street-flokki. Í þessum flokki er sérstakt „index“ sem þýðir að keppandi má ekki fara undir 11,49 sekúndum því þá tapar hann. Keppnin snýst um að fara sem næst þeim tíma og sigra. Fyrir þá sem ekki vita snýst þetta ekki bara um að vera á kraftmiklum bíl og einfaldlega vinna heldur snýst þetta um það að vera með gott viðbragð á ljósunum. „Þú getur verið á kraftmeiri bíl og betri tíma en ef þú sefur á ljósunum og startar of seint þá getur latari bíllinn unnið þig. Þetta er eiginlega þríþætt. Þú þarft að vera með bíl sem getur farið á þessum tíma, þú þarft að vera flinkur á ljósunum og þú mátt ekki fara undir tíma. Bíllinn hjá mér er búinn að fara á 10,9 sekúndum. Þá þarf ég að passa að bíllinn fari ekki undir 11,49 sek. og ekki láta einhvern keyra það stíft í mig að ég klikki á því að fara undir tíma. Brautin er kvartmíla eða 402 metrar. Þannig að þetta er mikil nákvæmni.“

Bíllinn sem Ingimar keppir á er Dodge Challanger SRT Hellcat, árgerð 2016 og er 707 hestöfl sem er með kraftmeiri götubílum sem til eru. Hann er óbreyttur standard-bíll á radial-dekkjum.

Ingimar var spurður hvenær hann hafi byrjað í bílaíþróttunum. „Ætli ég hafi ekki byrjað að keyra kvartmílu 1983. Ég fór svo „all in“ 1991 en þá smíðuðum við félagarnir, ég og Þórir Sverrisson, bíl gagngert fyrir rallycross sem var nýtt þá í Hafnarfjarðarhrauni. Við smíðuðum bíl í það sem var frægur fyrir að keppa í öllum greinum akstursíþrótta á Íslandi nema torfæru. Ég keppti reyndar líka í tveimur torfærukeppnum og er þ.a.l. eini maðurinn sem hefur keppt í öllum greinum bílasports á sama sumrinu. Ég varð Íslandsmeistari í standard-flokki í sandspyrnu 1991. Ég átti líka brautarmet á Rallycrossbrautinni í Hafnarfirði 1991. Eftir það hætti ég alveg í þessu og mætti ekki í keppni fyrir alvöru fyrr en 2017.

Þetta var þannig að eftir 1991 leyfði fjárhagurinn ekki meir. Þá kom bara pása. Það vita það allir sem hafa verið í bílasporti hvað þetta er dýrt. Næst keppti ég 1994 í svipuðum flokki úti í Bandaríkjunum. Þar tók ég þátt í tveimur keppnum, sem var skemmtileg reynsla. Það var miklu ódýrara að smíða keppnisbíl þar.

Ég kúplaði mig eiginlega út úr þessu eftir 1991. Ég hef alltaf verið á kafi í hestamennsku líka, þetta hefur bara fengið mismikið pláss. 2017 byrjaði ég aftur því mig langaði að gefa þessu smá tækifæri og ég á 18 ára son sem er með mér í þessu. Núna er verið að smíða bíl sem er helmingi fleiri hestöfl en bíllinn sem ég keppti á í sumar. Hann er 1400 hestöfl. Það er stefnt á að mæta með þennan sérsmíðaðan keppnisbíl í keppni á næsta ári,“ segir Ingimar.

Nýjar fréttir