Gerðir hafa verið nýir samningar við leikmenn Selfoss Körfu og iðkendum akademíunnar fyrir komandi tímabil, sem á eftir að stuðla að samkeppni innan yngri flokkanna, sem hefur ekki sést í einhvern tíma. Nýju leikmennirnir koma bæði frá Íslandi og erlendis frá. Allir þessir leikmenn eiga það sameiginlegt að hafa metnað til að ná langt í íþróttinni og með það markmið að koma sér til Bandaríkjanna í háskólaboltann eða mögulega í atvinnumennsku. Í grunninn skiptir það þá mestu að ná eins langt og metnaður þeirra leyfir.
Tengd grein:
Akademía Selfoss Körfu og FSu vekur athygli hæfileikaríkra íslenskra og erlendra leikmanna
Þessi hæfileikaríki hópur kemur inn í lið sem saman stendur af heimastrákum og öðrum sem hafa nýlega skrifað undir samning við liðið. Svavar Stefánsson, Hlynur Hreinsson, Sveinn Gunnarsson og Maciek Klimaszewski eru allir á sínum stað í liðinu ásamt atvinnumanninum Christian Cunningham sem nýlega skrifaði undir eftir að hafa spilað með 2. deildar háskólaliðinu Jacksonville State University í Bandaríkjunum sl. vetur.
Alex Gager (2001)
Hávaxinn framherji sem hefur reynslu með yngri landsliðum Englands og Bretlands. Kemur frá JMA akademíunni í Englandi.
Rhys Sundimalt (1999)
Leikstjórnandi með góða 3ja stiga skotfærni. Kemur frá Itchen akademíunni í Englandi.
Sigmar Jóhann Bjarnason (1999)
Sterkur framherji með reynslu í U15 og U16 landsliðum Íslands. Kemur frá Fjölni.
Ragnar Magni Sigurjónsson (1999)
Leikstjórnandi með góða skotfærni utan af velli. Tilbúinn að spila á hærra stigi. Kemur frá Skallagrími.
Bergvin Einir Stefánsson (2000)
Hávaxinn fram-/miðherji sem átti góða kafla með Selfossi síðasta vetur, en hann var þá að láni frá Njarðvík. Hann er með reynslu hjá U20 landsliði Íslands.
Páll Ingason (1999)
Framherji sem spilað hefur með Selfossi nokkur tímabil, bæði með meistara- og unglingaflokki. Hann hefur staðið sig vel í sumar og bætt sig mikið sem leikmaður.
Arnór Bjarki Eyþórsson (2001)
Bakvörður/framherji frá Selfossi sem heldur áfram að bæta sig með hverju árinu. Hann hefur spilað með drengja-, unglinga- og meistaraflokki Selfoss. Arnór hefur átt mjög gott sumar og æft vel innan vallar sem og í lyftingasalnum.
Kristijan Vladovic (1999)
Kröftugur leikstjórnandi með mikla hæfileika til að skapa tækifæri fyrir liðsfélaga sína. Hann er með reynslu hjá U18 landsliði Króatíu, sem er mjög mikil körfuboltaþjóð. Kristijan kemur til með að setjast á skólabekk í FSu og æfa með akademíunni ásamt meistaraflokksliði Selfoss körfu.