-6.6 C
Selfoss

Gómsætur lambapottréttur

Vinsælast

Matgæðingur vikunnar er Guðmundur Marías Jensson.

Mikið þakka ég honum Birgi vini mínum vel fyrir að leyfa mér að deila með ykkur mataruppskriftum. Birgir er einstakur borgari og er sannarlega snillingur þegar að borgurum kemur. Ég var einmitt í veislu hjá þeim hjónum Bigga og Dóru í sumar og voru reiddar fram nokkrar gerðir af smáborgurum sem voru hverjir öðrum betri.

Ég ætla hins vegar ekki í borgarana heldur eitthvað af því sem við hjónin eldum annað slagið og þykir mjög gott. Ég ætla að leyfa ykkur að njóta uppskrifta af lambapottrétti með grænmeti ásamt einföldum eftirrétti.

Hjá okkur hjónum er það nú þannig að við erum tvö í heimili svo það er gott að elda nógu mikið í kvöldmat til að það endist líka í hádeginu daginn eftir. Svo þessi lambapottréttur er alveg tilvalinn, fyrir utan það hvað hann er hollur.

Það sem þarf til að elda pottréttinn er fyrst og fremst góður ofnpottur, og svo auðvitað gott hráefni.

Hráefnið er:

Lambalærisneiðar 800 gr.

Rauðrófur

Kartöflur

Gulrófur

Gulrætur

Laukur

Blómkál

Brokkolí

Salt

Pipar

Best á lambið krydd

Ólífuolía

Grænmetisteningur

 

Lambakjötið er sett í pottinn og kryddað vel. Grænmetisteningurinn leystur upp í heitu vatni, ca. 1 vatnsglas. Grænmetissoðinu er síðan hellt meðfram kjötinu og dassi af ólífuolíunni hellt yfir kjötið. Kjötið er svo eldað við 180°C í ca. 1 klst., við viljum hafa það vel eldað og jafnvel þannig að það detti af beinunum. Því næst er allt grænmetið skorið smátt og því síðan hellt yfir kjötið og þetta allt saman eldað þar til grænmetið er tilbúið. Það þarf ekkert annað með þessu, soðið úr pottinum er svo notað sem sósa.

Það er svo alltaf gott að fá smá kvöldnasl og er þessi eftirréttur eitthvað sem við grípum oft í. Hann er eins einfaldur og hægt er að hugsa sér.

 

Eftirréttur:

Jarðarber

Bláber

Grísk jógúrt frá Örnu

Zero topping salted caramel (fæst í Netto)

 

Berin eru sett í huggulega skál ásamt gríska jógúrtinu og svo dass af Zero topping salted caramel yfir. Þessi eftirréttur klikkar aldrei.

 

Að lokum ætla ég að skora á hana stórfrænku mína Guðjónu Björk Sigurðardóttur til að deila með okkur einhverjum af sínum frábæru smáréttum. Var einmitt í matarboði hjá henni um helgina og þvílík veisla af smáréttum sem hún galdraði fram.

Nýjar fréttir