Almannavarnir hafa lokað hluta svæðisins tímabundið
Í gærmorgun féll skriða í Reynisfjöru en daginn áður hafði lögreglan á Suðurlandi lokað fyrir umferð um austurhluta fjörunnar, undir Reynisfjalli. Þar höfðu þrír slasast í grjóthruni, þar sem einn höfuðkúpubrotnaði og ung stúlka slasaðist á fæti. Grjóthrunið reyndist síðan vera fyrirboði um stærri skriðu. Mikil mildi var að enginn var á staðnum þegar skriðan féll.
Fyrstu athuganir sérfræðinga ofanflóðadeildar Veðurstofunnar benda til þess að skriðan eða a.m.k. hluti hennar hafi fallið á milli kl. 7 og 7:30 í gær. Lögreglumaður sem var í vettvangsferð upp úr kl. 7:30 varð var við mistur og brúnan lit á sjónum í nágrenni við skriðuna sem bendir til þess að hún hafi þá verið nýfallin. Ekki er hægt að útiloka að hún hafi fallið í nokkrum áföngum og að síðasti hluti hennar hafi skilað sér niður um morguninn.
Á myndinni má sjá skriður sem hafa fallið á síðustu 10 árum. Hér er teiknað ofan í mynd sem lögreglan á Suðurlandi tók með flygildi (Sigurður Sigurbjörnsson.)
Mælingar á vettvangi benda til þess að meginþorri efnisins hafi komið úr móbergi á hæðarbilinu 60–100 m. Ekki var talið skynsamlegt að fara of nærri upptökunum og því var stuðst við myndir úr flygildi sem lögreglan á Suðurlandi tók til að meta stærð og umfang skriðunnar. Breidd skriðunnar er um 100 metrar og hljóp hún um 50 metra frá rótum fjallsins út í sjó. Stærstu steinarnir sem sýnilegir eru í urðinni eru allt að 3 m í þvermál. Frumniðurstöður benda til þess að flatarmál svæðisins sem að varð undir skriðunni sé um 5.200 m2. Skriðan er þykkust upp við klettana, eða um 20 m, en meðalþykkt hennar er um 5 m og áætlað rúmmál um 25.000 m3.
Almannavarnir loka hluta svæðisins
Í gær hrundi nánast stöðugt úr sárinu fram undir kvöld. Enn er laust efni í upptökum skriðunnar og má búast við því að áfram hrynji úr stálinu næstu daga. Á sama hæðarbili, milli hruns sem að varð 2005 og nýja hrunsins sjást áberandi lóðréttar sprungur sem fylgjast þarf með. Víða má svo sjá smásprungur sem algengt er að finna í móbergi, en erfitt er að leggja mat hvar eða hvenær næsta hrun verður. Almannavarnir hafa ákveðið að loka aðgengi að þeim hluta Reynisfjöru sem er austan við Hálsanefshelli fram á föstudag, en þá verða aðstæður kannaðar að nýju og staðan endurmetin.
Þekkt að skriður falli úr Reynisfjalli
Ekki er vitað hvað kom skriðunni af stað. Þekkt er að jarðhræringar eða mikil úrkoma valdi skriðuföllum. Í sunnan- og austanverðu Reynisfjalli má víða sjá ummerki um skriðuurðir, staksteina og skriðusár í fjallinu og algengt að skriður falli úr móbergshlíðum líkt og í Reynisfjalli. Ummerkin eru mest áberandi í austurhluta fjallsins þar sem stórar skriður hafa fallið, allt frá syðsta hluta fjallsins og norður undir byggð og tekið er tillit til þeirra í ofanflóðahættumati fyrir Vík í Mýrdal frá 2010. Ólíkt austurhlíð fjallsins er mun minna um ummerki um skriður og grjóthrun í suðurhlíð fjallsins við Reynisfjöru en úthafsaldan er mjög öflug á þessum slóðum og hreinsar hratt ummerki um hrun. Árið 2005 féll allstór skriða í Reynisfjöru, vestan við skriðuna sem nú féll, skammt austan við Hálsanefshelli. Árið 2012/13 varð svo hrun úr þaki Hálsanefshellis en engum varð meint af. Á síðustu 10 árum hafa skriðuföll átt sér stað þrisvar sinnum sem geta ógnað ferðamönnum. Einnig falla staksteinar sem valdið geta slysum úr hlíðinni með reglulegu millibili.
Fréttin birtist fyrst á vef Veðurstofu Íslands.