-8.1 C
Selfoss

Fjarlægðin skiptir ekki máli

Vinsælast

Ein af fjölmörgum námsbrautum sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) hefur þróað fyrir fullorðið fólk og símenntunarmiðstöðvarnar kenna, eru Menntastoðir. Námið er ætlað þeim sem stefna á nám við undirbúningsdeildir háskóla eða vilja efla færni sína í almennum bóklegum greinum.

Miðvikudaginn 29. maí sl. útskrifaðist í fimmta sinn hópur frá Fræðslunetinu úr Menntastoðum. Námið hófst í lok ágúst 2018 og lauk núna í maí. Kennslugreinar voru m.a. danska, enska, íslenska, námstækni, stærðfræði og tölvu- og upplýsingatækni.

Námsmenn Fræðslunetsins koma víða að en starfssvæði þess er frá Þorlákshöfn í vestri til Hafnar í Hornafirði í austri. Búseta er oft nefnd sem ein af hindrunum fyrir þátttöku í námi. Með auknum sveigjanleika og „fjarfundalausnum“ þá hafa fleiri tækifæri á að sækja sér menntunar. Fræðslunetið býður upp á þann möguleika að stunda nám í heimahögum með því að fylgjast með kennslu í gegnum Skype. Þetta gerðu Dagbjört Henný Ívarsdóttir og Noelinie Naamayanga. Dagbjört Henný er búsett á Blönduósi en lét það ekki aftra sér frá því að taka þátt í námi í Menntastoðum hjá Fræðslunetinu. Það gerði Noelinie Naamayanga einnig en hún er búsett í Rangárþingi eystra og sótti námið í starfsstöð Fræðslunetsins á Hvolsvelli. Þær þurftu því báðar að takast á við þá hindrun að vera ekki á staðnum með leiðbeinanda en treysta alfarið á tæknina og Noelinie þurfti líka að takast á við aðra hindrun en það er að stunda námið á öðru tungumáli en móðurmálinu. Við fengum Dagbjörtu til þess að segja frá sinni upplifun eftir veturinn.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?
Ég ákvað að velja þetta nám af því að ég lenti í slysi í vinnunni sem ég var í og slasaðist illa á baki. Vegna þess gat ég ekki haldið áfram að vinna svo að mér fannst það fullkomið tækifæri til að fara aftur í nám. Ég hafði áður verið að íhuga að fara aftur í skóla en ég hafði ekki hugmynd um hvaða nám myndi henta mér eða þá hvað væri í boði fyrir mig. Þegar ég fór á fund með námsráðgjafa og hún sagði mér frá Menntastoðum fannst mér það henta mér fullkomlega.

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?
Að setjast aftur á skólabekk var mjög áhugavert og spennandi verkefni. Sérstaklega vegna þess að ég hef ekki verið í námi í þó nokkuð langan tíma. Auðvitað var það stressandi að byrja aftur en samt sem áður leið mér eins og í fyrsta sinn í langan tíma að ég væri að vinna í því að komast skrefinu nær markmiðinu mínu. Ég myndi því segja að ég hafi verið uppfull af spennu og tilhlökkun.

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?
Það sem kom mér mest á óvart með námið var án efa hversu auðvelt var að hafa samskipti við kennarana þrátt fyrir það að ég væri ekki í kennslustofunni með þeim.

Hvernig fannst þér ganga að taka þátt í náminu og vera ekki á staðnum, þ.e. taka þátt í tímum í gegnum Skype?
Mér fannst það ganga ótrúlega vel að taka þátt í náminu í gegnum Skype. Auðvitað getur það verið erfitt að taka þátt í námi án þess að vera á staðnum, en vegna þess hversu hjálpsamir kennararnir voru þá var það ekkert mál.

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?
Mottóið mitt í gegnum námið var það að ég ætti alltaf að reyna á mig aðeins meira en ég þurfti þegar kemur að verkefnum eða heimavinnu. Því að ég vissi að ég gat unnið verkefnin vel svo afhverju ekki að reyna gera þau aðeins betri eða lengri en ég hafði upphaflega ætlað mér?

Hvað hefur þú hugsað þér að gera í framhaldinu?
Í haust þá ætla ég að fara í Háskólabrú Keilis og þegar því er lokið þá mun ég fara í Háskóla Íslands og læra sagnfræði þar sem stefnan mín er að verða sagnfræðingur.

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og hefja nám að nýju?
Besta ráð sem ég gæti gefið þeim sem eru að íhuga að setjast aftur á skólabekk er að láta bara vaða og taka stóra skrefið og skrá sig í nám. Eða eins og er sagt á ensku: „Go for it“.

Nú stendur yfir innritun í nám hjá Fræðslunetinu og m.a. verður boðið upp á nám í Menntastoðum næsta vetur. Námið verður fjarkennt um allt Suðurland.

Nýjar fréttir