Díana Óskarsdóttir hefur verið skipuð í embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands frá 1. október nk., til næstu fimm ára. Sex sóttu um stöðuna, að því er fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Díana er skipuð af Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra en ákvörðun ráðherra er tekin að undangengnu mati lögskipaðrar hæfnisnefndar sem metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana.
Díana er með BS gráðu í geislafræði, meistarapróf í lýðheilsuvísindum og hefur að auki stundað nám í stjórnun og rekstri á sviði heilbrigðisþjónustu. Frá árinu 2015 hefur hún gegnt starfi deildarstjóra á röntgendeild Landspítalans, samhliða lektorsstöðu við Háskólann í Reykjavík. Áður starfaði hún í sjö ár sem geislafræðingur hjá Hjartavernd auk þess að vera námsbrautarstjóri í lektorsstöðu við Háskóla Íslands í tíu ár. Díana hóf fyrst störf sem geislafræðingur árið 1990 og hefur frá þeim tíma meðal annars unnið á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Landspítalanum og hjá Geislavörnum ríkisins.
Í mati hæfnisnefndar segir meðal annars að Díana hafi haldbæra reynslu af stjórnun og mannauðsmálum, hún geti sýnt fram á góðan árangur í breytingastjórnun við krefjandi aðstæður, þekking hennar á starfsemi sjúkrahúsa sé haldgóð og að hún hafi góða innsýn í stjórnsýslu, auk haldbærrar reynslu af samskiptum við opinbera aðila og fjölmiðla.
Díana tekur við embættinu af Herdísi Gunnarsdóttur sem hefur veitt Heilbrigðisstofnun Suðurlands forstöðu síðastliðin fimm ár.