3.4 C
Selfoss

Tekið á móti sumrinu í Garðyrkjuskólanum á Reykjum

Vinsælast

Hvernig líst þér á að taka á móti sumrinu í aldingarði, innan um trópískar plöntur, hátíðarstemningu og fuglasöng, gæða þér á glænýrri uppskeru af grænmeti, kryddplöntum og ýmsu öðru góðgæti? Sumarið er komið í garðskálanum og hægt er að heimsækja hitabeltið í bananahúsinu og pottaplöntusafninu.

Nemendur Garðyrkjuskólans að Reykjum verða með opið hús með hátíðahöldum á morgun sumardaginn fyrsta, 20. apríl 2017, kl. 10:00-17:00.

Hátíðardagskrá með forseta Íslands verður kl 13:15 þar sem garðyrkjuverðlaun, umhverfisverðlaun Hveragerðis og umhverfisverðlaun Ölfuss 2017 verða afhent.

Dagskrá verður einnig um allt svæði skólans og meðal annars bingó kl. 12:00 og 16:00. Boðið verður uppá heitt kakó og grillaða sykurpúða í garði skólans.

Kynning verður á náminu og skólanum og gefst fólki kostur á að skoða allar byggingar skólans, gróðurhús, tilraunahús, skrúðgarðyrkjuhús, stærstu banana plantekru sem staðsett er í Evrópu o.s.frv.

Sala verður á ýmsum framleiðsluvörum garðyrkjunnar. Má þar nefna nýsprottið hnúðkál ræktað af nemendum, tómata, gúrkur, paprikur, kryddjurtir í pottum, afskorin blóm, sumarblóm o.fl.

Gefið er út tímarit garðyrkjunema, Vorboðinn, með áhugaverðu efni tengdu garðyrkju á Íslandi og verður því dreift frítt á staðnum. Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga verða með kynningar á vörum sínum tengdum garðyrkju, s.s. bókum, hænsnakofum, vélum, gróðurhúsum o.fl.

Kaffi, vöfflur og kræsingar verða seldar í matsal skólans, pylsur, ís og aðrar veitingar verða einnig til sölu á svæðinu. Ýmsar skemmtilegar uppákomur verða s.s. andlitsmálning fyrir börn, ratleikur og getraunir og hestar. Einnig gefst börnum kostur á að sá fyrir eigin kryddjurtum og taka með sér heim. Þá verða verkefni nemenda í skrúðgarðyrkju til sýnis í verknámshúsinu.

Nýjar fréttir