-6.6 C
Selfoss

Í og úr sjónmáli á Þingvöllum

Vinsælast

Sigrún Kristjánsdóttir og Pálmi Bjarnason gáfu út ljósmyndabókina Þingvellir – í og úr sjónmáli sl. sumar hjá bókaútgáfunni Sæmundi. Sérstaða bókarinnar er tvímælalaust samspil texta og mynda, sem skapa saman heilsteypt verk. Það má kalla bókina myndskreytta ljóðabók eða ljósmyndabók með ljóðum. Sigrún og Pálmi voru spurð út í verkefnið.

Sigrún Kristjánsdóttir og Pálmi Bjarnason.

Aðal áhugamálið að mynda landslag
Sigrún er fædd og uppalin í Dalasýslu og fékk snemma áhuga á ljósmyndun. Upp úr aldamótum fór ljósmyndunin á annað stig eftir að hún fór á námskeið í ljósmyndum. „Eftir námskeiðið skráði ég mig í ljósmyndaklúbb og eftir það var ég dottin í það að ljósmynda landslag, en það er aðal áhuga efnið til ljósmyndunar.“ Pálmi er fæddur og uppalinn í sveit og hefur alltaf unað sér best úti í náttúrunni. „Það kviknaði snemma áhugi á að festa augnablikið á filmu þó ég hafi verið kominn fast að tvítugu þegar ég eignaðist mína fyrstu alvöru myndavél. Það var svo um 2003 sem ég tók þátt í ljósmyndasýningu og þá var ekki aftur snúið.“

Textarnir réðu myndavalinu
„Í upphafi kom upp sú hugmynd að gera einfalda ljósmyndabók með staðreyndartextum um Þingvelli, en lítið var til af ljósmyndabókum, ef einhverjar um Þingvelli. Fljótlega komumst við á þá skoðun að Þingvellir ættu eitthvað meira skilið og bókin er afrakstur samstarfs okkar við Hörpu Rún Kristjánsdóttur sem semur ljóðrænan texta við myndirnar. Þessi nálgun féll algjörlega að okkar hugmyndum um vandaða og öðruvísi bók. Við lögðum áherslu á það að texti og myndir sköpuðu eina heild og textarnir réðu miklu um myndavalið,“ segja Sigrún og Pálmi.

Valið stóð á milli 9000 ljósmynda
Aðspurð að því hvað þarf til að koma ljósmyndabók á koppinn segja þau: „Við tókum myndirnar á árunum 2015–2017. Samtals voru þetta um 35 dagspartar sem fóru í myndatökur. Yfirleitt snemma að morgni eða á kvöldin. Það var ein vornótt sem við vöktum. Við höfðum nokkuð skýra sýn á það hvaða myndefni við vildum. Áherslurnar voru á að mynda það sem venjulegur ferðamaður sér ekki. Bæði staði og ljós. Enda eru ekki margar myndir af helstu kennileitum eins og Öxarárfossi eða Lögbergi. Myndirnar eru margar hverjar óræðar og sýna upplifun frekar en landslag. Við tekur svo heilmikil yfirlega yfir því að fara í gegnum allar 9000 myndirnar sem söfnuðust, velja og hafna og að lokum vinna myndirnar þannig að endanleg gæði þeirra komi í ljós. Þetta er því löng og ströng meðganga,“ segja þau að lokum.

Nýjar fréttir