Sunnudaginn 30. júní nk. gengst Garðyrkjufélag Árnesinga fyrir garðaskoðun og verður hún að þessu sinni í Hveragerði og Ölfusi. Garðaskoðunin hefst kl. 13:00 stundvíslega í garði Ingibjargar Sigmundsdóttur og Hreins Kristóferssonar, við Heiðmörk 31 í Hveragerði. Síðan verður farið í aðra fallega garða í Hveragerði.
Skoðuninni lýkur með því að Guðmundur Birgisson á Núpum í Ölfusi gengur með gestum um skógræktarsvæðið á Núpum, en þar er vissulega margt forvitnilegt og fallegt að sjá. Leiðsögn Guðmundar hefst stundvíslega kl. 16:00.
Allir eru hjartanlega velkomnir í garðaskoðunina og útlit er fyrir þokkalegt veður.