Mikil breyting varð í Skálholti á fardögum að vori því dagana 3.–7. júní sl. var mjólkurframleiðslu hætt í Skálholti samkvæmt ákvörðun kirkjuráðs Þjóðkirkjunnar. Lýkur þar sögu kúabúskapar í Skálholti sem hefur verið stundaður frá á landnámstíð og margir telja órjúfandi hluta af sögu Skálholts. Mjólkurframleiðsla hefur síðustu ár verið stunduð með undanþágum og er básafjósið komið til ára sinna en framleiðslukvóti staðarins hefur ekki verið nema um 80 þúsund lítrar. Mjólkurkýr, kvígur og kálfar voru til sölu í Skálholti ásamt mjólkurtanki og röramjaltatækjum og ýmislegt fleira sem tengist mjólkurframleiðslunni. Skálholtsstaður annast söluna og mun nýta andvirði til uppbyggingar og reksturs á jörðinni. Skálholtsjörðin verður í umsjá Skálholtsstaðar og er stefnt að því að auglýst verði eftir ráðsmanni í sumar en það er liður í ákveðnum skipulagsbreytingum í stjórn og reksti Skálholtsstaðar.