-4.8 C
Selfoss

Vistheimt á Langamel við gamla Gjábakkaveg

Vinsælast

Menntaskólinn að Laugarvatni er kominn í samstarf við Bláskógaskóla á Laugarvatni og Skógrækt ríkisins um vistheimt á Langamel. Melurinn er við gamla Gjábakkaveginn, í vestanverðum Helgadal þar sem áður var skíðasvæði Laugarvatns. Hluti Langamels er innan skógræktargirðingar. Aðstæður á melnum eru slæmar. Kaldur strengur blæs niður Helgadal og virkt rof er á svæðinu, bæði vind- og vatnsrof. Gróður hefur látið á sjá síðustu árin, en ML hefur vaktað svæðið. Í ljósi þessa var ráðist í róttækar aðgerðir. Sveitarfélagið Bláskógabyggð veitti 100.000 kr. styrk til að kaupa á áburði ásamt gras- og hvítsmárafræjum. Skógræktin lagði til 600 birkiplöntur og Yrkjusjóður 300 plöntur til viðbótar.

Nemendur á mið- og elsta stigi Bláskógaskóla unnu að uppgræðslunni í maí, en þegar ljóst var að ekki tækist að klára verkefnið á skólatíma, komu heimamenn til aðstoðar við að ljúka verkinu. Við eigum svo sannarlega góða að.

Ákveðið var að byrja á að græða upp innan skógræktargirðingarinnar. Alls tókst að fara yfir svæði sem er um 2 hektarar að stærð. Enn er stórt svæði eftir en áætlað er að halda áfram að vinna að uppgræðslu á Langamel um óskilgreinda framtíð. Einhvern tímann þyrfti svo að breyta nafninu úr Langamel í Langaskóg, Fagraskóg eða annað viðeigandi nafn. Þarna má sjá fyrir sér skemmtilegt útivistarsvæði. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum sem tóku þátt og veittu okkur styrk í þetta brýna verkefni og hlakka til áframhaldandi samstarfs.

Heiða Gehringer, formaður umhverfisnefndar ML

Nýjar fréttir