-5 C
Selfoss

Oddný Steina kjörin formaður Landssamtaka sauðfjárbænda

Vinsælast

Oddný Steina Valsdóttir var kjörin formaður Landssamtaka sauðfjárbænda á þingi samtakanna í síðustu viku. Er hún jafnframt fyrsta konan sem gegnir því embætti í 30 ára sögu sambandsins.

Oddný Steina er bóndi á Butru í Fljótshlíð. Þar býr hún ásamt sambýlismanni og þremur börnum með 500 vetrarfóðraðar kindur og um 70 íslensk naut. Oddný Steina er fædd og uppalin í Úthlíð í Skaftártungu. Hún er menntaður búfræðingur frá Bændaskólanum frá Hvanneyri og útskrifaðist með B.s í Búfræði árið 2005.

Oddný Steina er virk í félagsstarfi bænda og hefur verið fulltrúi á Búnaðarþingi undanfarin ár fyrir Búnaðarsamband Suðurlands og síðan Landssamtök sauðfjárbænda. Hún hefur starfað sem varaformaður samtakanna undanfarin ár og sem formaður Fagráðs í sauðfjárrækt.

Oddný Steina hefur verið í forystusveit bænda varðandi landgræðslu og sjálfbæra landnýtingu. Bæði sem forystumaður bænda og síðan með beinum hætti í gegnum verkefni eins og Gæðastýringu í sauðfjárrækt og Bændur græða landið. Hún var nýlega skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem formaður faghóps í verkefninu Kortlagning gróðurauðlindarinnar.

Oddný Steina er líka mikill áhugamaður um nýsköpun innan greinarinnar. Hún hefur staðið í fylkingarbrjósti átaks til að fá bændur til að mjólka ær og endurvekja sauðaostagerð á Íslandi.

Oddný Steina fékk 44 af 46 atkvæðum í formannskjöri Landssamtaka sauðfjárbænda eða 96% atkvæða. Fráfarandi formaður samtakanna, Þórarinn Ingi Pétursson, var formaður í fimm ár. Hann studdi Oddnýu Steinu í formannskjöri. Hann mun áfram starfa sem formaður Markaðsráðs kindakjöts.

Nýjar fréttir