74. íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands var haldið í Reykjavík um síðustu helgi. Þingfulltrúar voru vel á annað hundrað af öllu landinu. Fulltrúar HSK á þinginu voru þau Guðríður Aadnegard, Helgi S. Haraldsson, Guðmundur Jónasson, Olga Bjarnadóttir, Engilbert Olgeirsson, Gissur Jónsson og Jana Lind Ellertsdóttir, sem mætti sem varafulltrúi seinni daginn.
Þrír einstaklingar úr HSK voru heiðraðir á þinginu. Hrafnhildur Guðmundsdóttir í Þorlákshöfn og Guðmundur Kr. Jónsson Selfossi voru kosin heiðursfélagar ÍSÍ og Jón M. Ívarsson var sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ.
Olga Bjarnadóttir kjörin í stjórn ÍSÍ
Tíu voru í framboði til sjö sæta í stjórn ÍSÍ til fjögurra ára. Olga Bjarnadóttir á Selfossi var var ein þeirr og var kjörin í stjórn. Gunnar Bragason frá Hellu var endurkjörinn og því eru þrír Sunnlendingar í nýju stjórninni en Selfyssingurinn Þráinn Hafsteinsson var kosinn til fjögurra ára á íþróttaþingi 2017. Reykvíkingurinn Knútur G. Hauksson kom nýr inn í stjórn, en hann er jafnframt formaður Golfklúbbs Öndverðarness. Aðrir sem náðu kjöri eru Ása Ólafsdóttir, Hafsteinn Pálsson, Ingi Þór Ágústsson og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir.