-4.8 C
Selfoss

Njálu-refilsfólk heimsótti Bayeux í Frakklandi

Vinsælast

Hvenær er ferðalag langt og hvenær stutt? Stundum getur ferðalag tekið stuttan tíma en verið samt í huga manns mjög langt og lærdómsríkt. Á það ekki endlega við um vegalengdir, miklu fremur viðburði. Og það átti svo sannarlega við þegar hópur Njálu-refilsfólks fór í fimm daga kynnisferð til Bayeux í Frakklandi til að skoða hinn heimsfræga, 1000 ára gamla Bayeux-refil. Hópurinn samanstóð af saumafólki, nokkrum aðstandendum, sveitarstjóra Rangárþings eystra, Antoni Kára Halldórssyni og formanni fagráðs Sögusetursins, Óla Jóni Ólasyni.

Lagt var upp frá Njálu-refilstofunni á Hvolsvelli kl. þrjú aðfaranótt sumardagsins fyrsta, þann 25. apríl sl. Haldið var á Keflavíkurflugvöll þaðan sem flogið var til Parísar. Þar tók á móti okkur hinn indæli fararstjóri og leiðsögumaður, Kristín Jónsdóttir, þekkt sem Parísardaman (sjá: http://www.parisardaman.com/). Hún býður Íslendinum upp á leiðsögn um París og skipuleggur einnig lengri ferðir eftir óskum viðskiptavina. Kristín var ekki sú eina sem beið okkar á vellinum því fyrir utan stóð stór og stæðileg rúta sem flutti okkur á áfangastað, hótelið okkar í Bayeux. Á leiðinni til Normandí blöstu við okkur fagrir akrar, repjan með sinn skærgula lit í fullum blóma, og trjágróðurinn upp á sitt fegursta, nýútsprunginn. Það er mikið forskot sem ræktunin á þessum slóðum hefur miðað við okkar aðstæður, þar sem ekki var einu sinni búið að sá á þessum tíma. Á áfangastað beið okkar kvöldverður og eftir langt og strangt ferðlag var lagst á koddann með mikilli tilhlökkun fyrir þeim spennandi dögum sem framundan voru.

Næsti dagur hófst á skoðunarferð um Bayeux. Borgin er að grunni til frá tímum Rómaveldis en seint á níundu öld lögðu Normanar hana í rúst og reistu nýja borg eftir að hafa tekið kristna trú. Í borginni má enn finna leifar af gamla borgarmúrnum ásamt mörgu fleiru ævafornu enda slapp borgin að mestu við sprengjuregn seinni heimsstyrjaldarinnar.

Við byrjuðum á að skoða grasagarðinn í Bayeux en þar stendur eitt af merkistrjám Frakklands, gríðar umfangsmikið hengibeyki sem gróðursett var á seinni hluta nítjándu aldar. Garðurinn er afar fagur og státar af mörgum merkilegum trjám og gróðri.

Þá var haldið að dómkirkjunni í Bayeux (Cathédrale Notre-Dame de Bayeux). Bygging hennar hófst 1047 og var hún vígð 14. júlí 1077 að viðstöddum Vilhjálmi sigursæla hertoga af Normandí og konungi Englands sem er aðalpersónan í orrustunni við Hastings og þá um leið aðal söguhetjan í Bayeux-reflinum. Kirkjan er friðlýst sem einn af þjóðardýrgripum Frakklands. Þar sem kirkjan stendur er forn helgistaður, allt frá tímum Rómverja. Það var hér sem Vilhjálmur neyddi Harald Guðinason til að sverja sér trúnaðareið, sem Haraldur svo sveik. Það leiddi til innrásar Normanna í England, 1066 sem Bayeux-refillinn segir frá. Odo biskup í Bayeux, hálfbróðir Vilhjálms, tók þátt í innrásinni og telja margir að hann hafi staðið fyrir gerð refilsins.

Hópurinn fyrir framan safnið Bayeux Museum ásamt safnstjóranum Antoine Verney.

Nú var komið að stóru stundinni í ferðinni, heimsókninni á Bayeux Museum sem hýsir Bayexurefillinn. Refilinn er 70 metra langur og er á heimsminjaskrá Unesco. Það fór straumur um marga í hópnum þegar við komum inn í portið á safninu. Ég held að mörgum hafi þótt þetta helg stund. Við vorum leidd í gegnum söguna með hljóð-leiðsögn og þótti sumum nóg um hraðann sem var á því ferðalagi enda margur sem vildi virða betur fyrir sér ýmis smáatriði í reflinum. En þetta er gert til að tryggja flæði í gegnum sýninguna sem 400.000 manns skoða á ári hverju og allt að 3000 manns á dag. Þegar við höfðum farið í gegnum sýninguna tók safnstjórinn Antoine Verney á móti okkur og fræddi okkur um sögu og varðveislu refilsins. Það er mikið vandaverk að varðveita svo gamalt listaverk og að mörgu að huga í því sambandi. Nú stendur til á næstu árum að byggja nýtt hús yfir listaverkið sem er í eigu franska ríkisins og sagði Verney okkur að ágreiningur væri um hvernig refillinn yrði sýndur í hinu nýja húsnæði. Hvort leggja ætti áherslu á að sýna listaverkið eins og hugsað var í upphafi eða að meiri áhersla verði lögð á varðveisluna.

Ekki er laust við að smá kvíðahroll hafi sett að sumum í hópnum, þegar við leiddum hugann að varðveislu hinn 90 metra langa Njálu-refils. Í öllu falli duldist engum að við höfðum fengið mikilvægar og gagnlegar upplýsingar. Að lokum færðum við Verney nokkrar gjafir, m.a. hóp-saumaða mynd úr Njálu-reflinum. Heimsóknin á safnið var áhrifarík og ljóst að að mörgu þarf að huga þegar kemur að uppsetningu og varðveislu Njálu-refilsins.

Þessum frábæra degi lauk á dýrindis kvöldverði á hinum pínulitla og sjarmerandi veitingastað La Rapière þar sem hópurinn fagnað 60 ára afmæli Christinu Bengtson sem er annar af verkefnastjórum refilsins.

Daginn eftir bjuggu ferðafélagarnir við nokkuð frelsi, þar sem engin dagskrá var skipulögð. Nýtti fólk daginn til að skoða söfn, búðir og byggðir.

Síðasti dagur ferðarinnar var í raun tileinkaður innrásinni í Normandí og heimsókn í miðaldarbæinn Honfleur sem er gamall hafnarbær sunnanmegin við ósa Signu. Afar fallegur miðbær sem státar af gömlum húsaröðum þar sem urmull lítilla og fallegra verslana og lista-gallería gleðja fjölda ferðamanna sem vafra um bæinn. Bærinn slapp við sprengjuregn Þjóðverja öfugt við Le Havre sem er norðan megin við Signuósa, bærinn sá var rústir einar eftir innrásina í Normandí. Í Honfleur er afar falleg og hlýleg kirkja, kennd við heilaga Katrínu. Hún var reist um miðja 15. öld. Hún er úr timbri og er talið að bátasmiðir hafi séð um bygginguna enda hvolfþakið eins og skip á hvolfi. Bærinn er nokkuð sérstakur þar sem svört steinklæðning einkennir flest gömlu húsanna í miðbænum.

Frá Honfleur var ekið að Omaha-ströndinni og að minningarkirkjugarði um fallna Bandaríkjamenn og hetjudáðir þeirra við innrásina í Normandí (The Normandy American Cemetery and Memorial) þar sem 9.400 hermenn eru grafnir, og að auki er minnst 1.500 saknaðra. Við skoðuðum einnig minjar um gamlan hafnargarð og fleira sem tengdist þessum mikla atburði sem breytti gangi seinni heimsstyrjaldarinnar eins og öllum er kunnugt. Það var áhrifaríkt að koma á þessar slóðir. Við Íslendingar sem vorum svo langt frá þessum voðaatburðum höfum sennilega aldrei getað sett okkur inn í þær aðstæður sem fólk bjó við í Evrópu á þessum stríðstímum.

Þá var komið að heimferð. Þrátt fyrir að mannskapurinn væri orðinn nokkuð lúinn þegar komið var aftur á áfangastað voru allir sammála um að ferðin hafi tekist einstaklega vel, verið bæði fræðandi og gagnleg á allan máta. Víst er að Njálu-refillinn á eftir að njóta góðs af þeirri fræðslu sem aðstandendur hans fengu í ferðinni.

Að lokum vil ég þakka þeim Gunnhildi Eddu Kristjánsdóttur, verkefnastjóra Njálu-refilsins og Parísardömunni, Kristínu Jónsdóttur fyrir góða skipulagningu og leiðsögn í ferðinni.

Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir

Nýjar fréttir