-6.6 C
Selfoss

Úthlutun úr Íþrótta- og afrekssjóði Rangárþings eystra

Vinsælast

Íþrótta- og afrekssjóður Rangárþings eystra var stofnuður fyrir um ári síðan. Sjóðurinn hefur það markmið að veita einstökum íþrótta- eða afreksmönnum, sem keppa fyrir hönd íþróttafélags í Rangárþingi eystra, viðurkenningu og fjárstuðning og auðvelda þeim æfingar og þátttöku í mikilvægum keppnum.

Nýlega var úthlutað úr sjóðnum í fyrsta skipti. Þrír einstaklingar hlut styrk að þessu sinni en það voru þau Birta Sigurborg Úlfarsdóttir fyrir frjálsar íþróttir, Þorsteinn Ragnar Guðnason fyrir taekwondo og Þórdís Ósk Ólafsdóttir fyrir knattspyrnu. Þau eru öll fædd 2003 og öll búsett á Hvolsvelli.

Birta Sigurborg, hefur æft frjálsar íþróttir að miklum krafti sl. 5 ár. Hún þykir mjög efnileg frjálsíþróttakona og er komin í úrvalshóp Frjálsíþróttasambands Íslands fyrir 15–22 ára. Hún hefur sótt og stundað æfingar á Selfossi allt að 5 sinnum í viku í allan vetur auk þess sem hún æfir á Hvolsvelli. Birta keppti á flestum mótum sem hafa verið í boði bæði innan og utanhúss. Hún keppir fyrir hönd Dímonar eða HSK þegar það á við. Birta hefur ná mjög góðum árangri í hlaupum og er yfirleitt í efstu sætum í sínum aldurshópi í þeim greinum sem hún tekur þátt í. Íþrótta og afrekssjóður samþykkti að styrkja hana um 40.000 krónur og árskort i sund og líkamsrækt á Hvolsvelli.

Þorsteinn Ragnar hefur æft og keppt í taekwondo formum (poomsae) í nokkur ár. Hann hefur náð góðum árangri, æfir og keppir með landsliði Íslands en jafnframt því keppir hann á öllum þeim mótum sem í boði eru innanlands. Á mótum tekur Þorsteinn þátt í öllum þeim greinum sem hægt er að keppa í en þau eru einstaklingsflokkur, para- og hópapoomsea og freestyle. Á þessum mótum er hann nær undantekingalaust í fyrstu tveimur sætunum. Þorsteinn er duglegur að sækja æfingabúðir hvort heldur sem er innanlands eða erlendis. Íþrótta og afrekssjóður samþykkti að styrkja hann um 30.000 krónur og árskort i sund og líkamsrækt á Hvolsvelli.

Þórdís Ósk hefur stundað knattspyrnu frá því hún var 6 ára gömul. Hún er mjög áhugasöm og sinnir sinni íþrótt mjög vel. Í fyrstu æfði hún með KFR en keppti með ÍBV þegar KFR og ÍBV voru í samstarfi. Þegar samstarfinu lauk og enginn möguleiki á að keppa og æfa í Rangárþingi eystra fór hún að stunda æfingar og keppni með liði Selfoss. Núna er hún á eldra ári í 3. flokki kvenna á Selfossi og æfir þar 4–5 sinnum í viku auk þess sem hún keppir reglulega með 2. flokki kvenna. Íþrótta- og afrekssjóður samþykktir að styrkja hana um 20.000 krónur og árskort i sund og líkamsrækt á Hvolsvelli.

Sveitarfélagið Rangárþing eystra óskar þessum einstaklingum til hamingju og vill hvetja aðra til þess að sækja um.

Nýjar fréttir